Staðan á neðri hæðinni skárri

Búið er að rjúfa veggi í miðrými hússins.
Búið er að rjúfa veggi í miðrými hússins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Minni eldur hefur komist inn í geymslurnar á neðri hæðinni í húsnæði Geymslna í Miðhrauni í Garðabæ, en á efri hæðinni. Þetta segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, en slökkviliðið hefur barist við eld í iðnaðarhúsnæðinu frá því snemma í morgun.

„Geymslurnar á neðri hæðinni eru í skárri stöðu en efri hæðin. Það er ekki mikill eldur sem hefur farið inn á neðri hæðina,“ segir hann og bætir við að skemmdir geti þó engu að síður verið þar af völdum sóts og vatns. „Síðan var þarna eins konar ris líka, þannig að þetta voru eiginlega þrjár hæðir og það er mun verri staða þar.“

Á milli 90 og 100 slökkviliðsmenn hafa verið að störfum …
Á milli 90 og 100 slökkviliðsmenn hafa verið að störfum á vettvangi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á milli 90-100 manns tóku þátt í starfi slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu í Miðhrauninu í dag. „Við búum svo vel að geta hringt í alla þá starfsmenn okkar sem eru á frívakt og við fengum ansi góða svörun frá þeim. Síðan vorum við með tvö námskeið í gangi, bæði með fólki sem var búið að vera hjá okkur í rúmt ár og eins líka fólk sem var að byrja núna í vor og við kölluðum þessi námskeið bæði inn á vettvanginn.  Svo búum við líka svo vel að eiga góða nágranna, þannig að við fengum aðstoð frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi og Brunavörnum Suðurnesja í Reykjanesbæ.“

Komu á vettvang úr öðru útkalli

Jón Viðar minnir á að slökkviliðið hafi á sama tíma einnig þurft að manna bækistöðvar sínar vegna mögulegra útkalla. „Við verðum alltaf að vera viðbúnir því að það komi önnur úthringing. Það var til dæmis staðan á bækistöðinni í Hafnarfirði, sem er næst þessum vettvangi, að hún kom á staðinn úr öðru útkalli.“

Hann segir allt hafa gengið upp og aldrei hafi verið skortur á starfsmönnum. Aftur á móti þurftum við, er leið á daginn, að gefa þeim frí sem voru í nótt og eins þeim sem voru að fara að vinna núna í nótt.“

Ljóst er að miklar skemmdir eru á húsinu.
Ljóst er að miklar skemmdir eru á húsinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki er nefnilega enn búið að slökkva eldinn að fullu, þó að slökkviliðinu hafi nú síðdegis tekist að ná tökum á eldinum og búið sé að draga úr mönnun. „Þetta eru ekki eins mannkrefjandi verkefni og voru í dag, en við erum með nægilegan mannskap í þetta,“ segir hann. „Við erum með einn krabba og einn „payloader“, sem er hjólaskófla sem fer inn í miðrýmið. Síðan erum við með mannskap sem slekkur í því sem er tekið og í því sem blossar upp við þetta rask.“ Eldhreiður leynist enda sums staðar og því blossi upp reykur af og til þegar verið sé að færa til hluti í miðrýminu.

Sú nýjung var notuð í baráttunni við eldinn að dróni frá lögreglunni sendur á loft og sendi hann frá sér hitamyndir sem veittu yfirsýn yfir svæði og aðstoðuðu slökkvistarfið. „Þannig að við gátum séð hvernig hitinn var að breiðast út yfir þakið og vissum þá hversu mikill eldur væri þar undir á hverjum stað fyrir sig.“

Ekki er enn búið að slökkva eldinn að fullu, þó …
Ekki er enn búið að slökkva eldinn að fullu, þó að slökkviliðinu hafi nú síðdegis tekist að ná tökum á eldinum og búið sé að draga úr mönnun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Staflað upp miklum eldsmat í þröngu rými

Jón Viðar segist gera ráð fyrir að slökkvistarf haldi áfram inn í nóttina og ekki sé enn innan seilingar sú staða að að slökkvilið sé eingöngu að vakta húsið. „Síðan þegar þetta er búið þá afhendum við lögreglu vettvanginn og hún þarf sinn tíma til að rannsaka hann.“  

Eflaust séu margir eigendur muna í geymslunum að velta fyrir sér hvenær þeir komist inn til að skoða aðstæður og bendir Jón Viðar þeim að hafa samband við forsvarsmenn Geymslna. „Það fyrirtæki er í nánu sambandi við lögreglu og því er eðlilegt að fólk hafi bara samband við fyrirtækið sem það er að leigja hjá.“

Spurður hvort þetta sé með stærri og erfiðari brunum sem slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hafi komið að segir Jón Viðar það hafa komið að mörgum stórum brunum. „Eiginlega of mörgum þegar maður horfir í baksýnisspegillinn,“ segir hann og rifjar upp brunann í Lækjargötu 2007, brunann í Hringrás 2011 og í Skeifunni 2014. Aðstæður í dag hafi hins vegar vissulega verið mjög erfiðar.

Eldhreiður leynast enda sums staðar og því blossar upp reykur …
Eldhreiður leynast enda sums staðar og því blossar upp reykur af og til þegar verið er að færa til hluti í miðrýminu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það hljómar kannski einkennilega að það sé erfitt að slökkva í geymslum, en það er bara þannig að þá er búið að stafla upp miklum eldsmat inni í þröngu rými og ekkert annað en eldurinn kemst þar að, þannig að það þarf eiginlega að byrja á því að tæma rýmið.“

Aukinheldur séu þessar rúmlega 200 geymslur í raun hálfgerðir gámar á þremur hæðum. „Og maður sendir ekki inn mann í einhvern langan gang þegar maður getur átt von á því að það hrynji eitthvað bak við hann þannig að hann lokist hreinlega inni. Maður verður alltaf að vera með trygga leið út fyrir starfsmennina þegar það er verið að vinna þetta. Eins er ekki ásættanlegt í svona starfi að ævintýrast eitthvað með öryggi starfsmannanna. Það verður að vera númer eitt, tvö og þrjú,“ segir Jón Viðar og kveður þetta ástæðu þess að slökkvilið fór hvorki inn í miðrými hússins né geymslurnar.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Baráttan við eldinn tekur á

„Við fórum hins vegar örlítið inn í skrifstofurýmið, en hættum því þegar við lentum í þessu óhappi með einn af okkar reykköfurum,“ bætir hann við og vísar þar í er einn reykkafara slökkviliðsins hrapaði á milli hæða.

Annað púsl til viðbótar við óvissuna í dag hafi verið að ekki sé vitað hvað er geymt í geymsluhúsnæði og hvers konar eldsmat sé þar að finna. 

Jón Viðar segir aðra stöðu þó á brunavettvangi núna og því skapist mögulega einhver staða til að kíkja inn í brunarústirnar. „En við erum ekki að gera það að svo stöddu.“

Aðstæður til slökkvistarfs á vettvangi voru erfiðar.
Aðstæður til slökkvistarfs á vettvangi voru erfiðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir baráttuna við eldinn í dag óneitanlega hafa tekið á slökkviliðsmenn. „Þetta gekk ágætlega, en vandinn var hins vegar sá að við vorum alltaf að elta eldinn og náðum aldrei yfirhöndinni og það finnst okkur vera gífurlega óþægilegt. Það verður hins vegar að fara saman í svona slökkvistarfi öflug slökkvieining, öflugar innbyggðar eldvarnir í byggingunni sjálfri og svo eldsmatur. Maður er því feginn að enginn hafi slasast þegar komið er í seinni helminginn á svona verkefni.“

Mikinn svartan reyk lagði frá húsinu.
Mikinn svartan reyk lagði frá húsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert