Skoða að fara til Sýrlands að leita

Afdrif Hauks í Sýrlandi eru enn ekki ljós.
Afdrif Hauks í Sýrlandi eru enn ekki ljós. Af Twitter

Eva Hauksdóttir segist ekki gera sér vonir um að íslensk yfirvöld bæti sig í að afla upplýsinga um afdrif sonar hennar, Hauks Hilmarssonar. Í máli hennar í viðtalsþættinum Víglínunni sagði hún að hópur fólks hefði það nú til skoðunar að fara til Sýrlands að leita.

Eva ræddi við Heimi Má Pétursson um Hauk Hilmarsson sem er talinn hafa fallið í Afrin í Sýrlandi þann 24. febrúar síðastliðinn. Eva er búin að vera í sambandi við menn sem voru með Hauki í Raqqa, en ekki hefur tekist að finna neinn sem vissi um ferðir Hauks eftir 1. febrúar.

Kúrdar sögðu Hauk ekki hafa skilað sér eftir aðgerð. Biðu þeir svo í tíu til fimmtán daga með það að slá því föstu að hann væri af. Eva telur ekkert víst um örlög Hauks og gefur lítið fyrir yfirlýsingar Tyrkja þess efnis að hann sé ekki í þeirra haldi.

Danskur vinur Hauks á leið heim frá Sýrlandi

Eva sagðist hafa verið í samband við danskan mann sem var góður vinur Hauks í Sýrlandi, og foreldra hans. Sá danski er á lífi og er á leiðinni heim frá Sýrlandi. Danski félagi Hauks skráði sig á Facebook áður en hann hélt til Sýrlands, en hann ætlaði sér ekki að taka þátt í vopnuðum átökum, heldur í uppbyggingu.

Að sögn Evu voru Haukur og sá danski á leiðinni heim frá Raqqa þegar þeir voru kallaðir til baka til að verja Afrin.

Í skriflegu svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is um stöðuna á máli Hauks hjá ráðuneytinu segir að engar nýjar fregnir hafi borist af afdrifum hans. Ráðuneytið, sendiskrifstofur og ræðismenn fylgi málinu stöðugt eftir með reglubundnum fyrirspurnum en upplýsingaöflun eftir formlegum leiðum á því svæði sem Haukur er sagður hafa fallið sé afar erfið. Enn sem komið er hafi ekkert komið fram sem geti varpað ljósi á hvar hann er niðurkominn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert