Fundur velferðarnefndar verður opinn

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra mun mæta á fund velferðarnefndar á …
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra mun mæta á fund velferðarnefndar á morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fundur velferðarnefndar Alþingis, þar sem Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra mun sitja fyrir svörum nefndarmanna, verður opinn.

Halldóra Mogensen, formaður nefndarinnar, sagði í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að hún ætlaði einnig að boða Braga Guðbrandsson á fundinn. Bragi hefur um árabil verið forstjóri Barnaverndarstofu en er nú í leyfi frá störfum.

Fulltrúar velferðarnefndar hafa í gær og fyrradag fengið aðgang að umfangsmiklum gögnum er tengjast kvörtunum barnaverndar yfir afskiptum Braga og Barnaverndarstofu af einstökum málum. Nefndarmenn höfðu óskað eftir því að félagsmálaráðuneytið myndi afhenda öll gögnin en tæplega mánuð tók að fá þau afhent. 

Í gögnunum koma viðkvæmar persónuupplýsingar um einstök barnaverndarmál fram. Um trúnaðargögn er að ræða og því hafa fulltrúar nefndarinnar ekki getað tjáð sig um efni þeirra.

Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi Viðreisnar í nefndinni, sagði á Sprengisandi í morgun að hún teldi gögnin styrkja frásögn Stundarinnar af málinu en í frétt blaðsins um helgina kom fram að Bragi hefði haft afskipti af máli manns, sem sakaður er af barnsmóður sinni um að beita dætur þeirra kynferðisofbeldi.

 Fundur velferðarnefndar hefst klukkan 11 í fyrramálið og er opinn eins og fyrr segir.

Vegna fundarins varð að aflýsa móttöku flóttafólks sem fyrirhuguð var á Hótel Ísafirði klukkan 15 á morgun. Samkvæmt upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu mun ráðherrann reyna að finna fyrsta mögulega tíma til þess að koma til Vestfjarða og taka þátt í móttökunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert