Hugsi yfir viðbrögðum formanns VR

Vilhjálmur Egilsson, stjórnarmaður í Hörpu, segist vera hugsi yfir viðbrögðum …
Vilhjálmur Egilsson, stjórnarmaður í Hörpu, segist vera hugsi yfir viðbrögðum formanns VR að setja Hörpu í „viðskiptabann“ vegna umfjöllunar um uppsagnir þjónustufulltrúa í Hörpu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vilhjálmur Egilsson, stjórnarmaður í Hörpu, segir að málstaður forstjóra Hörpu hafi fengið lítinn hljómgrunn í umfjöllun og umræðu um uppsagnir meirihluta þjónustufulltrúa Hörpu í vikunni.

Alls hafa 22 þjón­ustu­full­trú­ar í Hörpu sent inn upp­sagn­ar­bréf vegna óánægju með kjör sín. Fimm til viðbót­ar eiga eft­ir að gera upp við sig hvort þeir halda áfram eða ekki.

Upp­sagn­irn­ar komu í kjöl­far fjöl­miðlaum­fjöll­unar um þjón­ustu­full­trúa í Hörpu sem of­bauð launa­hækk­un for­stjóra, sem var sögð 20%, svo að hann sagði upp. Formaður stjórnar Hörpu segir fréttir að launahækkun forstjórans vera falsfréttir. 

Í langri færslu sem Vilhjálmur birti á Facebook í gærkvöldi segist hann vera hugsi yfir „þeirri miklu orrahríð sem dunið hefur á forstjóranum síðustu daga.“ Hann segist sjálfur bera ábyrgð á stöðunni þar sem hann kom að ráðningu Svanhildar Konráðsdóttur í starf forstjóra Hörpu. „Mér finnst ekki eðlilegt að sitja í skjóli og láta aðra um að taka á sig alla ágjöfina þegar ég ber sjálfur hluta af ábyrgðinni á því hvernig staðan er,“ skrifar Vilhjálmur.

1,5 milljónir króna í mánaðarlaun „í hóflegri kantinum“

Því næst rifjar hann upp ráðningu Svanhildar. „Í byrjun árs 2017 þegar ráðningarferlið gekk yfir lá fyrir að stjórn Hörpu yrði að semja við hana um laun vegna þess að búið var að breyta lögunum um aðkomu kjararáðs að ákvörðun launa forstjóra Hörpu. Eins og gengur var nokkur vinna að samræma sjónarmið varðandi launin en á endanum samdist um 1500 þús. kr. mánaðarlaun sem var í hóflegri kantinum miðað við það sem gerðist og gekk hjá æðstu stjórnendum í starfsemi af svipuðu umfangi og hjá Hörpu. Eftir að búið var að semja um launin við Svanhildi kom úrskurður frá kjararáði um lægri laun og hún féllst á að vera á þeim í tvo mánuði þangað til að ábyrgðin á málinu færðist alfarið til stjórnar Hörpu. Mér finnst það ekki vera eðlilegt að tala um „launahækkun“ þegar tímabundinni launalækkun lýkur. Hvað skyldu margir stjórnendur sem tóku launalækkanir í kjölfar hrunsins 2008 til baka einu til tveimur árum seinna hafa nuddað viðkomandi starfsmönnum upp úr því að þeir hafi fengið „launahækkanir“? Og hvað skyldu margir starfsmenn hafa upplifað það sem „launahækkun“ að fá fyrri umsamin laun á ný?“ skrifar Vilhjálmur.  

Erfiðasta sem stjórnandi gerir er að skerða kjör

Vilhjálmur segir að eitt af því leiðinlegasta og erfiðasta sem stjórnandi stendur frammi fyrir sé að skerða kjör starfsmanna með einhverjum hætti. Hann bendir á að þjónustufulltrúar í Hörpu hafi fengið borgað umfram taxta til lengri tíma sem hann telur ekki vera góða framkvæmt hjá opinberum eða hálfopinberum aðilum.

„Ein af sparnaðarráðstöfunum sem ráðist var í var því að lækka þessa yfirborgun á taxta en bjóða nýja samninga sem enduðu að vera með með 15% álagi á taxta auk þess að ekki yrði lengur greitt fyrir óunna dagvinnutíma líkt og tíðkast hafði,“ skrifar Vilhjálmur.

Hann segir að breytingarnar hafi verið gerðar í samráði við VR. „Eðlilega kom trúnaðarmaður [að] samtalinu við starfsmenn um þessar breytingar. Þetta er á engan hátt einstök aðgerð hjá Svanhildi eða Hörpu því ýmis fyrirtæki þurfa því miður stundum að grípa til slíkra aðgerða. Engu að síður er þetta alltaf viðkvæmt mál ekki síst þar sem launin eru ekki há. Þetta var hins vegar aðeins ein aðgerð af mörgum til að ná niður kostnaði. Og ég hef á tilfinningunni að ef launin hefðu verið í núverandi horfi frá upphafi hefði fæstum þótt slík laun athugaverð. Vissulega þarf að gæta þess að þegar gripið er til aðgerða eins og í Hörpu að starfsmönnum þyki að réttlátlega sé staðið að verki. Og almennt virðist svo sem það hafi tekist,“ skrifar Vilhjálmur.

Furðar sig á viðskiptabanninu

Þá segist hann vera hugsi yfir viðbrögðum formanns VR að setja Hörpu í „viðskiptabann“.

„Var það gert í samráði við aðra starfsmenn Hörpu sem eru í VR? Og er það í þágu þeirra? Ætlar formaðurinn að grípa til sambærilegra aðgerða gegn öðrum fyrirtækjum sem yfirborga taxta minna en 40%? Ég tel rétt að þetta mál fái að róast niður og að menn ræði það af meiri yfirvegun en verið hefur,“ skrifar Vilhjálmur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert