Hrafn krefst leiðréttingar hjá Þjóðskrá

Hrafn Jökulsson segist búsettur í Norðurfirði, ekki á Ránargötu í …
Hrafn Jökulsson segist búsettur í Norðurfirði, ekki á Ránargötu í Reykjavík eins og Þjóðskrá heldur fram. mbl.is/Ómar

Hrafn Jökulsson hefur sent Þjóðskrá Íslands beiðni um að úrskurður stofnunarinnar um lögheimili hans verði endurskoðaður. „Ég vænti þess að málið fái jafn skjóta meðferð og Þjóðskrá hefur unnið hin málin,“ segir Hrafn í samtali við mbl.is.

Hrafn hefur sagt að lögheimilisflutningur hans í Árneshrepp hafi verið lögmætur. Í samtali við mbl.is í dag segir hann að hann geti ekki verið skráður til heimilis þar sem hann hafi ekki lykla, „ég vona að Þjóðskrá fari ekki að senda póst þangað sem ég kemst ekki inn.“ Hann krefst þess að beiðni hans um að lögheimilisskráning sín verði leiðrétt fái flýtimeðferð þar sem hann hafi ekkert erindi á kjörskrá í Reykjavík.

Ástríður Jóhannesdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs hjá Þjóðskrá Íslands, segir við mbl.is að hún geti ekki tjáð sig um stök mál sem eru til umfjöllunar hjá stofnuninni, en að almennt yrði leitast við að flýta fyrir afgreiðslu sambærilegra mála.

Átján manns fluttu lögheimili sitt í Árneshrepp á Ströndum, fámennasta sveitarfélag landsins, á tveggja vikna tímabili í lok apríl og byrjun maí. Þjóðskrá hefur fellt 12 skráningar niður og samþykkt eina. Fjórar skráningar eru enn til umfjöllunar hjá stofnuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert