Var væntanlega að leiðbeina Evu

Árneshreppur á Ströndum. Miklar deilur hafa verið í hreppnum vegna …
Árneshreppur á Ströndum. Miklar deilur hafa verið í hreppnum vegna áforma um Hvalárvirkjun. mbl.is/Golli

Ekkert er óeðlilegt við samskipti Vesturverks og oddvita Árneshrepps að mati Ásgeir Margeirssonar, stjórnarformanns Vesturverks, sem segir tillögu framkvæmdastjóra fyrirtækisins að bókun hreppsnefndar eingöngu vera setta fram í leiðbeiningarskyni.

Pétur Húni Björnsson, stjórnarmaður í Rjúkanda vekur á Facebook-síðu Rjúkanda athygli á því að Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri Vesturverks, hafi sent Evu Sigurbjörnsdóttur oddvita Árneshrepps tillögu að bókun hreppsnefndar.

„Sæl Eva

Hjálagt er Skipulags- og matslýsing vegna breytinga á aðalskipulagi Árneshrepps vegna Hvalárvirkjunar. Óskað er eftir heimild til að vinna að breytingum á gildandi aðalskipulagi og nýtt deiliskipulag í samræmi við meðfylgjandi skipulags- og matslýsingu. Hjálagt er einnig tillaga að bókun hreppsnefndar vegna þessa erindis. Það er mjög mikilvægt að þetta sé rétt bókað hjá hreppsnefnd annars gerir Skipulagsstofnun athugasemdir við bókunina að mér er sagt. Kveðja/Regards Gunnar G. Magnússon“ segir í bréfinu sem Pétur Húni birtir.

Segir Pétur því ekki rétt líkt og þeir Gunnar og Ásgeir hafi haldið fram að þeir hafi bara sinnt þeim erindum sem til þeirra hafi verið beint og „ekki skipt sér að því hvað hreppurinn gerir“.

Sveitarfélagsins að ákveða hvernig tillagan lítur út

Í samtali við mbl.is ítrekar Ásgeir að ekkert óeðlilegt hafi verið við samskipti Vesturverks og Árneshrepps. Spurður hvort það teljist eðlilegt að Vesturverk sendi oddvita tillögu að bókun hreppsnefndar kveðst hann ekki hafa séð umrædd tölvupóstsamskipti. „Í grunninn er það samt svo að ef Eva hefur spurt hann, þá svara ég eins og áður, að það sem við sendum frá okkur er okkar álit eða afstaða. Hvað sveitarfélagið síðan gerir, eins og í þessu tilviki við textann sem kemur frá Gunnari, get ég ekki svarað fyrir. Það er sveitarfélagsins að gera,“ segir Ásgeir.

Mbl.is leitaði svara hjá Evu um það hvort tillagan hefði verið bókuð orðrétt en hún kvaðst ekki tjá sig um málið.

Spurður hvort að viðhorf sitt sé það sama hafi tillagan verið send að frumkvæði Gunnars, segir Ásgeir Gunnar þá væntanlega vera að segja „hvað honum finnst þurfa að koma fram í tillögunni. Það er svo sveitarfélagsins að ákveða hvernig hún lítur út. Það er hvorki Gunnars, mitt né annarra að gera,“ segir hann.

„Þarna er hann að reyna að leiðbeina Evu með sinni þekkingu á því hvernig svona mál þurfa að gerast. Það er mjög mikilvægt í þessu að vinna málin rétt og gera rétt. Þetta er flókinn frumskógur að fara í gegnum og mál geta fallið á svo mörgum tæknifeilum,“ bætir hann við og nefnir sem dæmi að kærur hafi borist sveitarfélögum af því að bókun hafi vantað hjá einhverri nefnd, eða skipulags- eða umhverfisnefndir viðkomandi sveitarfélaga ekki bókað málið rétt.

„Það er ekki margir sem eru sérfræðingar á þessu sviði.“

Það breyti því þó ekki að það sé sveitarfélagsins að móta sínar skoðanir, álit og ákvarðanir sjálft.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert