Óheimilt að reka gistiskýli fyrir hælisleitendur á Bíldshöfða

Bíldshöfði 18 í Reykjavík.
Bíldshöfði 18 í Reykjavík. mbl.is/Hanna

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu þeirra sem eiga hlut í fasteigninni Bíldshöfða 18 í Reykjavík, að það sé viðurkennt að Riverside ehf., sem einnig á hlut í atvinnuhúsnæðinu, og Útlendingastofnun sé ekki heimilt að reka gistiskýli fyrir hælisleitendur í húsnæðinu án samþykkis þeirra.

Málið var þingfest 12. desember 2017 en dómur féll í gær. Þess var krafist að viðurkennt yrði með dómi að Riverside og Útlendingastofnun væri óheimilt að starfrækja sjálfum, öðrum hvorum eða báðum, eða heimila öðrum starfrækslu gistiskýlis fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd samkvæmt lögum um útlendinga, í eignarhlutum fasteignarinnar Bíldshöfða 18, Reykjavík.

Ágreiningurinn laut í meginatriðum að því hvort Riverside ehf. væri á grundvelli samnings við Útlendingastofnun heimilt að reka gistiskýli í húsnæðinu, sem getur hýst allt að 70 einstaklinga, fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem í daglegu tali eru kallaðir hælisleitendur, að því er fram kemur í dómnum. 

Stefnendur málsins kveðast vera þinglýstir eigendur að 21 eignarhluta í fasteigninni Bíldshöfða 18. Undir rekstri lögbannsmálsins lögðu fimm eigendur til viðbótar þeim lið, án beinnar aðildar að lögbanninu þ.a. í raun er um að ræða 19 eigendur eignarhluta í húsnæðinu, að því er fram kemur í dómi héraðsdóms.

Af hálfu stefnenda var vísað til þess að fasteignin væri á reit í aðalskipulagi Reykjavíkur, sem gildi fyrir árin 2010-2030. Reiturinn væri skipulagður undir rýmisfrekar verslanir, heildsölur og skrifstofur ásamt því að léttur iðnaður og verkstæði væru leyfð á reitnum. Í skipulaginu væri hagnýtingu eignarinnar markaður farvegur og töldu stefnendur ljóst að ekki væri heimilt að vera með gistiheimili í flokki I-III á lóðinni við Bíldshöfða 18. Þá væri heldur ekki heimilt að reka í húsnæðinu gistirými fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Gildi það einu að mati stefnenda þótt umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefði veitt undanþágu frá reglugerð um hollustuhætti.

Töldu sig hafa öll tilskilin leyfi

Riverside byggði sýknukröfu sína á því að fyrirtækið væri ekki réttur aðili málsins þar sem það væri Útlendingastofnun en ekki Riverside sem kæmi til með að starfrækja gistiskýlið.

Útlendingastofnun krafðist sýknu og taldi ekkert fram komið í málinu sem styddi við kröfu þeirra. Stofnunin benti á að öll tilskilin leyfi væru fyrir hendi og ekki væri krafist ógildingar á þessum stjórnvaldsákvörðunum í málinu. Það lægi ljóst fyrir að engin dómkrafa í málinu lyti að því að fella þegar útgefin leyfi úr gildi og málsástæður er varða málsmeðferð stjórnvalda sem leyfisveitenda væru málinu óviðkomandi. Hins vegar lægi fyrir að við ákvörðun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins hefðu legið fyrir upplýsingar um andstöðu annarra lóðarhafa ásamt því að breytingu á deiliskipulagi hafi verið synjað.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að það liggi fyrir að starfsræksla gistiskýlis sé ekki aðeins í ósamræmi við þá starfsemi sem áður hafi verið gert ráð fyrir í fasteigninni, heldur einnig í andstöðu við þau sjónarmið um starfsemi á svæðinu sem mælt sé fyrir um í aðalskipulagi og deiliskipulagi. Með vísan til þessa verði að telja að stefnendur hafi lögmæta hagsmuni af því að notkun séreignar Riverside ehf. verði ekki breytt með þeim hætti sem leigusamningur þess við stefnda Útlendingastofnun gerir ráð fyrir.

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst því á viðurkenningarkröfu stefnenda um að Riverside og Útlendingastofnun væri óheimilt að starfrækja sjálfum, öðrum hvorum eða báðum, eða heimila öðrum starfrækslu gistiskýlis fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd í eignarhlutum fasteignarinnar.

Ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 24. nóvember 2017, um að leggja lögbann við því að Riverside og Útlendingastofnun starfræki sjálfir, annar hvor eða báðir, eða heimili öðrum starfrækslu gistiskýlis fyrir umsækjendur um alþjóðlega í sömu fasteign, er staðfest.

Þá er stefndu gert að greiða stefnendum kr. 2.000.000 í málskostnað.

Dómur héraðsdóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert