Skriðan greinanleg á gervitunglamynd ESA

Skriðan sést greinilega á ratsjármynd frá Evrópsku geimvísindastofnuninni sem var …
Skriðan sést greinilega á ratsjármynd frá Evrópsku geimvísindastofnuninni sem var tekin rétt eftir klukkan átta í gærmorgun. Ljósmynd/Facebook

Skriðan sem féll úr Fagra­skóg­ar­fjalli við Hít­ar­dal í gærmorg­un sést greinilega á gervitunglamynd frá Evrópsku geimvísindastofnuninni, ESA. Skriðan er senni­lega ein sú stærsta sem hef­ur fallið frá land­námi.

Frá þessu er greint á Facebook-síðu Eldfjallafræði- og náttúruvárhóps Háskóla Íslands. Myndin, sem er ratsjármynd frá SENTINEL-1 gervitungli ESA, er tekin klukkan átta í gærmorgun en talið er að skriðan hafi fallið milli klukkan 5 og 6 í fyrrinótt.

Í færslu hópsins segir að skriðan komi greinilega í ljós, þó að myndin sé ekki í hárri upplausn. „Þó að skriðan verði kortlögð með mun meiri nákvæmni með flygildum og einnig ýmsum búnaði í flugvél Landhelgisgæslunnar, er gagnlegt að hafa aðgang að gervitunglum sem mynda landið með reglubundnum hætti,“ segir meðal annars í færslunni.

Ef myndin er borin saman við mynd af svæðinu sem er tekin 25. júní virðist skriðan þekja um 1,8 ferkílómetra, en upptakasvæðið er þar ekki tekið með. Í færslu hópsins er einnig sagt frá því að ef loftmyndir af Fagraskógarfjalli eru skoðaðar sést eldra brotsár á svipuðum stað í fjallinu, sem og hraukar, sem bendir til þess að skriðan sem féll í gær sé ekki sú fyrsta sem fellur á svæðinu.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert