Óvíst með fordæmisgildi samninganna

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Formaður BHM segir ótímabært að segja til um hvort samningar ljósmæðra verði fordæmisgefandi fyrir önnur félög innan BHM. 27 félög heyra undir BHM og eru félagsmenn þeirra 13 þúsund talsins. Samningar losna hjá mörgum félaganna næsta vor. Fjármálaráðherra hefur áhyggjur af sundrungu á vinnumarkaði og segir vinnumarkað vera á krossgötum um hvert skuli stefnt í kjaramálum.

Í síðustu viku sendi BHM frá sér stuðningsyfirlýsingu við kjarabaráttu ljósmæðra þar sem baráttan var sett í samhengi við kjarabaráttu annarra stétta innan BHM. Segir í yfirlýsingunni að starfskjör fleiri stétta valdi viðvarandi skorti á starfsfólki og ónógri nýliðun.

„Í dag eru það ljósmæður sem hverfa frá störfum hjá ríkinu  en fleiri stéttir gætu verið í svipaðri stöðu, t.d. þroskaþjálfar, sálfræðingar, náttúrufræðingar, sjúkraþjálfarar, félagsráðgjafar, lífeindafræðingar, leikarar, geislafræðingar og dýralæknar,“ segir í yfirlýsingunni sem BHM sendi frá sér í síðustu viku.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið í morgun að stjórnvöld séu stödd í miðju samtali við aðila vinnumarkaðarins um hvert Íslendingar vilji stefna í kjaramálum.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert

„Af okkar hálfu hefur verið lögð áhersla á það að viðhalda samkeppnishæfni atvinnulífsins, að rétt væri að leggja áherslu á vöxt kaupmáttar og stöðugleika í landinu,“ sagði Bjarni.

Segir hann mikla sundrungu vera á vinnumarkaði þar sem ákveðnir hópar ætli sér ekki að fylgja launaþróun annarra hópa. „Þetta er uppskrift að óstöðugleika, hærri vöxtum og verðbólgu,“ segir Bjarni í samtali við Morgunblaðið í dag.

Telja sig eiga meira inni en önnur félög BHM

Samkvæmt heimildum mbl.is gætti nokkurrar óánægju meðal ljósmæðra með yfirlýsingu BHM í síðustu viku. Ljósmæður byggja launakröfu sína á því að laun stéttarinnar séu hlutfallslega verri en hjá öðrum stéttum miðað við vaktaálag og menntunarkröfu, en menntunarkrafa ljósmæðra er sú næstmesta innan BHM á eftir prófessorum.

Ljósmæður standa í erfiðum samningaviðræðum við ríkið. Þær hafa verið …
Ljósmæður standa í erfiðum samningaviðræðum við ríkið. Þær hafa verið samningslausar í tíu mánuði og hafa boðað til yfirvinnubanns á miðnætti á miðvikudag. Fjöldauppsagnir byrjuðu að taka gildi um síðustu mánðamót og eiga fleiri eftir að tínast inn eftir því sem deilan dregst á langinn. Ljósmynd/Pexels

Í samtali við mbl.is segir Þórunn Sveinbjarnardóttir að yfirlýsingin hafi verið stuðningsyfirlýsing við kjarabaráttu ljósmæðra og að ekki tímabært að segja hvaða þýðingu samningar þeirra hafa fyrir önnur félög innan BHM. Fyrst þurfi að sjá hvaða samning þeim verður boðinn.

„Það er algjörlega ótímabært að segja neitt um það. Samningar eru lausir hjá félögum sem eru með samninga við ríki og sveitarfélög næsta vor. Þau munu væntanlega vinna að kröfugerðinni næsta haust og þá liggur það fyrir hvaða kröfur eru gerðar, segir Þórunn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert