„Mjög mosavaxið á þessari leið“

Bílarnir, sem eru merktir erlendri ferðaskrifstofu, sveigðu út af veginum …
Bílarnir, sem eru merktir erlendri ferðaskrifstofu, sveigðu út af veginum fram hjá sköflum. Ljósmynd/Páll Gíslason

Lögreglan á Suðurlandi hefur unnið að því í dag að koma bílum sem óku utan vegar og festu sig, í grennd við fjallið Loðmund norðan Kerlingarfjalla, upp úr drullunni og af svæðinu.

Þær upplýsingar fengust frá lögreglu fyrr í kvöld að ekkert lægi fyrir um hver refsing ferðalanganna fyrir utanvegaaksturinn yrði, en hvert mál af þessu tagi sé metið fyrir sig. Málið er enn í vinnslu hjá lögreglu.

Bílarnir eru á erlendum númerum og eru kirfilega merktir frönsku ferðaskrifstofunni Imagine 4x4, sem skipuleggur og auglýsir á vefsíðu sinni ævintýrajeppaferðir um víða veröld.

Páll Gíslason, framkvæmdastjóri ferðaþjónustunnar í Kerlingarfjöllum, tilkynnti lögreglu um utanvegaaksturinn í dag og ræddi við mbl.is um athæfi ferðamannanna, sem óku á svæði þar sem akstur er bannaður sökum bleytu.

Mosaskemmdir sjást úr mikilli fjarlægð

Jón Guðmundsson, formaður umhverfisnefndar ferðaklúbbsins 4x4, segir í samtali við mbl.is að almennt séu leiðir á hálendinu að opnast frekar seint þetta sumarið sökum vætutíðar.

„Sérstaklega þessi leið þarna norðan við Kerlingarfjöllin, það er allt á kafi í drullu þar enn þá,“ segir Jón.

Páll Gíslason lýsti því fyrir blaðamanni í dag að ferðamennirnir hefðu krækt út af veginum sem þarna liggur til þess að forðast snjóskafla og fest sig í drullusvaði í kjölfarið.

Jón dæsir af miklum þunga í símann er atvikum er lýst fyrir honum.

„Það fer alveg hræðilega með þetta. Þetta er mjög mosavaxið á þessari leið þarna undir Loðmundi. Mosinn er mjög viðkvæmur,“ segir Jón. Hann bætir því við að för í mosa líti illa út og blasi við úr mikilli fjarlægð, sérstaklega þegar menn færi sig ofar í landslaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert