„Við erum að tala um fæðandi konur“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Hari

„Ástandið hefur verið erfitt, alveg frá mánaðamótum,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Yfirvinnubann ljósmæðra hefst á miðnætti en næsti fundur í kjaradeilunni er eftir sex daga.

Páll segir að með yfirvinnubanninu færist vandinn á fleiri staði og sé ekki eingöngu á meðgöngu- og sængurkvennagangi heldur einnig á fæðingargangi og víðar. „Auk þess er einnig yfirvinnubann á öðrum stofnunum sem hafa verið að létta undir hjá okkur,“ segir Páll.

Hann segir að yfirvofandi yfirvinnubann muni vitanlega þyngja stöðuna og staðan sé metin frá vakt til vaktar. „Við erum að tala um fæðandi konur. Kjaradeilur og heilbrigðisþjónusta er alltaf eitruð blanda en hún er alveg sérstaklega eitruð hér þegar um fæðandi konur er að ræða.

Frá mótmælum á Austurvelli í dag þar sem ríkisstjórnin var …
Frá mótmælum á Austurvelli í dag þar sem ríkisstjórnin var hvött til að semja við ljósmæður. mbl.is/Árni Sæberg

Páll segist taka undir orð landlæknis frá því í gær en Alma D. Möller landlæknir sagði í gær að það væri ekki í boði að deiluaðilar funduðu á tveggja vikna fresti.

Forstjórinn bendir á að í verkfalli þurfi spítalinn að sækja um viðbótarmönnun til undanþágunefndar. Þegar sé farið að gera umsóknir fyrir nóttina. „Það segir sitt um stöðuna. Við gerum okkar besta en þegar við segjum að þetta sé óviðunandi ástand og hættuástand þá erum við að meina það.

Spurður segir Páll að markmið spítalans sé alltaf að tryggja öryggi sjúklinga. „Það er óviðunandi að hafa fæðingarþjónustu með þessum hætti vikum saman. Við höfum búið við það að vera með eina öruggustu fæðingarþjónustu í heimi og viljum ekki raska því,“ segir forstjórinn en skilaboð hans til deiluaðila eru skýr:

„Setjist niður og standið ekki upp fyrr en búið er að semja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert