Ástralskir ferðamenn ánægðastir

Þeir sem dvelja fimm nætur eða lengur eru almennt ánægðari …
Þeir sem dvelja fimm nætur eða lengur eru almennt ánægðari með Íslandsdvölina. mbl.is/Eggert

Ferðamannapúls júnímánaðar mældist 1,7 stigum hærri en í sama mánuði á síðasta ári, eða 83,4 stig af 100 mögulegum. Ástralar voru ánægðastir ferðamanna og mældist púlsinn hjá þeim 89,2 stig. Þar á eftir komu Kanadabúar með 85,4 stig. Bretinn er hins vegar óánægðastur með Íslandsdvölina og gefur henni 80,6 stig.

Ferðamannapúlsinn er tekinn saman af Gallup og er metinn út frá fimm þáttum: heildaránægju með ferðina, líkum á að mæla með Íslandi sem áfangastað, skynjun á gestrisni Íslendinga, hvort ferðin hafi uppfyllt væntingar og hvort hún hafi verið peninganna virði.

Sá þáttur sem mældist hæstur í júnímánuði voru líkur á að mæla með Íslandi sem áfangastað en mat ferðamanna á því hvort ferðin hafi verið peninganna virði mældist lægstur, 78,2 stig.

Eitt af því sem breytist yfir sumarmánuðina er að erlendir ferðamenn dvelja almennt lengur í landinu. Hlutfall þeirra sem dvöldu í fimm nætur eða lengur hækkaði úr 55% í 65% á milli mánaða. Þeir sem gista fimm nætur eða lengur eru almennt ánægðari en þeir sem gista skemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert