Engin gasmengun mælst í Hólaskjóli

Rennsli í ánni hefur farið yfir 1.000 rúmmetra (milljón lítra) …
Rennsli í ánni hefur farið yfir 1.000 rúmmetra (milljón lítra) á sekúndu. Ljósmynd/Veðurstofan

Mælingamenn Veðurstofunnar mældu enga brennisteinsmengun við Hólaskjól þegar þangað var komið um klukkan tíu í kvöld. Í samtali við mbl.is segir Bjarki Kaldalóns Friis náttúruvársérfræðingur að menn hafi verið sendir þangað vegna þess að tilkynning barst um að brennisteinsmengun hefði mælst á mæli í skála á svæðinu. Ljóst sé að sú mengun hafi verið lítil, úr því hún var vart mælanleg þegar veðrufræðingar komu á vettvang.

Enn eykst rennsli í Skaftá við Sveinstind í Öræfajökli og mælist nú 1.052 rúmmetrar á sekúndu. Bjarki segir rennslið hafa sveiflast örlítið upp og niður síðasta klukkutímann en leitnin sé upp á við og hámarki hafi ekki verið náð.

Gas berst á undan straumnum

Gastegundir, sem berast með hlaupvatninu, leiða rafmagn og má því mæla styrk gastegunda með því að athuga rafleiðni árinnar. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni hefur rafleiðni Skaftár aukist, jafnvel inni í Skaftárdal þangað sem vatn úr hlaupinu hefur ekki enn borist. Hlaupið hefur nú náð suður að Hólaskjóli.

GPS-mælir sem Veðurstofan er með í Eystri-Skaftárkatli sýnir að íshellan hefur nú sigið um tæpa 38 metra. Í Skaftárhlaupi 2015 seig ketillinn mest 80 metra niður en Bjarki segir að ómögulegt sé að segja til um á þessari stundu hvort þeirri dýpt verður náð.

Eldvatnsbrúnni hefur verið lokað en hlaupið á enn eftir að …
Eldvatnsbrúnni hefur verið lokað en hlaupið á enn eftir að fara fram hjá henni. mbl.is/JAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert