29 dauðsföll til rannsóknar

Ólafur B. Einarsson, verkefnisstjóri hjá embætti landlæknis.
Ólafur B. Einarsson, verkefnisstjóri hjá embætti landlæknis. mbl.is/Hari

Fram í miðjan júní höfðu 29 dauðsföll þar sem grunur leikur á að lyf hafi komið við sögu komið til rannsóknar hjá embætti landlæknis. Allt árið í fyrra voru málin 32 talsins. 

Að sögn Ólafs B. Einarssonar, verkefnisstjóra lyfjamála hjá embætti landlæknis, eru nokkur atriði sem vekja athygli núna, það er í fyrsta lagi þessi aukning á fjölda matsgerða (32 allt árið í fyrra en 29 á tæplega hálfu ári í ár), meðalaldur er að lækka og margir einstaklingar sem hafa tekið talsvert af lyfjum stuttu fyrir andlát hafa ekki fengið þeim ávísað.

Ólafur segir að það veki einnig athygli hversu algengt sé að mörg ólík lyf eru að finnast í hverjum einstaklingi sem talinn er hafa látist af völdum lyfja. Inn á milli eru einnig einstaklingar sem hafa fengið miklu ávísað af lyfjum, jafnvel frá mörgum læknum, en lyfjagagnagrunnur átti að koma í veg fyrir að einstaklingar væru að fá sömu lyf eða lyf sem ekki passað saman frá mörgum læknum, segir Ólafur.

Líkt og kom fram á vef embættis landlæknis í janúar var megintilgangur þess að veita læknum aðgang að lyfjagagnagrunni að auka öryggi lyfjaávísana. Í því felst að læknar hafi yfirsýn yfir þær ávísanir sem sjúklingur hefur verið að leysa út og hvað hann á af óútleystum lyfjum í lyfseðlagátt.

mbl.is/Valgarður Gíslason

Ein af birtingarmyndum þols og ávanabindingar hjá sjúklingum sem fá ávanabindandi lyf er ráp á milli lækna til að verða sér úti um meira af lyfjum. Þetta er vandi sem er ekki aðeins til staðar á Íslandi, en í löndum þar sem aðgangur að læknum er greiður, getur það skapað mikinn vanda. 

1. júlí tók gildi reglugerð nr. 1266/2017 um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja. Þar kemur meðal annars fram að frá og með 1. september verður óheimilt að ávísa með pappírslyfseðli ávana- og fíknilyfi til afgreiðslu hér á landi. 

Ávísun lyfja í síma miðast við sem nemur einni pakkningu af lyfi. Ávísun á ávana- og fíknilyf gegnum síma verður enn sem áður ekki heimil. 

Tillögur starfshóps um leiðir til að sporna við lyfjamisnotkun

mbl.is