„Yrði aldrei byggð í dag“

39 hið minnsta létust er um 200 metra vegkafli brúarinnar …
39 hið minnsta létust er um 200 metra vegkafli brúarinnar hrundi. Fallið er um hundrað metrar. AFP

Þetta er mjög sérstakt mannvirki. Menn myndu aldrei smíða svona brú í dag sem treystir aðeins á eitt stag,“ segir Guðmundur Valur Guðmundsson, forstöðumaður hönnunardeildar Vegagerðarinnar, um Morandi-brúna í Genúa á Ítalíu sem hrundi í gærmorgun. Brúin var svokölluð stagbrú og skásett stög notuð til að halda uppi brúarbitunum. Þá hafi hún verið hönnuð fyrir mun minni umferð en þá sem nú var komin.

Ný brú yfir Ölfusá yrði um 330 metr­ar að lengd, …
Ný brú yfir Ölfusá yrði um 330 metr­ar að lengd, stag­brú með um 60 metra háum turni á Efri-Laug­ar­dæla­eyju í miðri ánni. Kostnaður er áætlaður um 4,5 milljarðar króna. Ljósmynd/Efla

Nokkrar stagbrýr eru á Íslandi, til að mynda yfir Jökulsá á Fjöllum. Þá er fyrirhuguð ný brú yfir Ölfusá, norðan Selfoss, stagbrú. Aðspurður segir Guðmundur að vonast sé til að nýja brúin yfir Ölfusá rísi eftir 4-5 ár en það sé háð samgönguáætlun.

Eins og jafnan við hörmungar sem þessar keppast menn á Ítalíu við að finna sökudólg. Samgönguráðherra landsins hefur sagt að viðhaldi veghaldarans, Autostrade, hafi verið ábótavant en fyrirtækið hafnar því og bendir á eftirlit hins opinbera. Brúin hafi verið skoðuð ársfjórðungslega eins og lög kveði á um.

Kallar ekki á sjálfsskoðun hér

Aðspurður segir Guðmundur hrun brúarinnar ekki kalla á sérstaka sjálfsskoðun hjá Vegagerðinni. Allar brýr eru skoðaðar á þriggja til fimm ára fresti. Í því felst fyrst og fremst sjónmat en komi eitthvað í ljós er ráðist í ítarlegri greiningar. „Þannig fórum við til dæmis í nákvæmari greiningu á Ölfusárbrú og þá kom í ljós að komin var tæring í kaplana og slit í gólfið, sem geta haft áhrif á endingu hennar.“ Því hafi verið ákveðið að ráðast í viðhaldsaðgerðir sem nú standa yfir.

Guðmundur Valur Guðmundsson, forstöðumaður hönnunardeildar hjá Vegagerðinni.
Guðmundur Valur Guðmundsson, forstöðumaður hönnunardeildar hjá Vegagerðinni. Ljósmynd/Aðsend

„Við höfum lengi verið í því að styrkja brýr sem þurfa á því að halda,“ segir Guðmundur. Af nýsmíðum á áætlun megi einkum nefna fyrrnefnda Ölfusárbrú, nýja brú yfir Eldvatn í Skaftártungu, sem ráðgert er að rísi næsta sumar í stað þeirrar sem nú stendur en hún laskaðist í Skaftárhlaupi 2015 þegar hrundi undan eystri stöpli hennar og óttuðust menn jafnvel að hún hryndi í hlaupinu fyrr í mánuðinum.

Þá sé ný brú yfir Hornafjarðarfljót og i Gufudalssveit á samgönguáætlun en framkvæmdir velti á fjárveitingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert