Verð losunarheimilda í sögulegu hámarki

Áætla má að heildarlosun af flugi til og frá Íslandi …
Áætla má að heildarlosun af flugi til og frá Íslandi sé um helmingi meiri en sá hluti sem fellur undir kerfi EES- og Evrópusambandsríkja. Mynd úr safni. AFP

Áætla má að heildarlosun af flugi til og frá Íslandi sé um helmingi meiri en sá hluti sem fellur undir kerfi EES og Evrópusambandsríkja. Öll stóru íslensku flugfélögin þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir flug sitt, en verð fyrir losunarheimildirnar er nú í sögulegu hámarki að sögn Margrétar Helgu Guðmundsdóttur, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun.

Greint var frá því í gær að losun frá flugi til og frá landinu hafi aukist um 13,2% milli áranna 2016 – 2017. Heildarlosun í flugi sem fellur undir kerfi EES- og ESB-ríkja var 813.745 tonn koltvísýringsígildi í fyrra. Árið áður var losunin 718.624 tonn, en fram kom í frétt Umhverfisstofnunar að þessar tölur tækju ekki til Ameríkuflugs, eða flugs til ríkja utan EES- eða ESB-ríkja.

„Við getum að minnsta kosti tvöfaldað töluna ef Ameríkuflug og flug til ríkja utan EES og ESB er tekið með,“ segir Margrét Helga í samtali við mbl.is.

„Allir flugrekstraraðilar að kaupa heimildir“ 

Íslenskir, líkt og aðrir evrópskir flugrekendur, fá úthlutað endurgjaldslausum losunarheimildum. Heildarlosun flugfélaganna er þó töluvert umfram endurgjaldslausu heimildirnar. „Það eru allir flugrekstraraðilar að kaupa heimildir,“ segir Margrét Helga. 

Minni flugrekendur í atvinnurekstri sem eru undir 10.000 tonnum, eða með færri en 243 flugferðir á hverju þriggja mánaða tímabili, eru þó undanskildir því að þurfa að gera upp heimildir sínar. Þannig er Air Iceland Connect til að mynda eina flugfélagið í innanlandsflugi hér á landi sem þarf að gera upp losunarheimildir sínar.

„Tilgangurinn er að ná til þessara stóru,“ útskýrir Margrét Helga.

Eins og áður sagði nam losun flugrekenda innan þess kerfis 813.745 tonnum á síðasta ári og standa fimm íslenskir flugrekendur á bak við þá tölu. Sé horft til þeirra stærstu er Icelandair með 186.364 tonn af endurgjaldslausum losunarheimildum það ár, WOW air með 152.382 tonn, Bluebird með 14.058 tonn og Air Iceland Connect með 8.011 tonn. Alls eru þetta 360.815 tonn sem er ríflega tvisvar sinnum minna en sú losun sem gerð var upp.

Verðið fyrir hverja losunarheimild, en ein heimild samsvarar einu tonni, …
Verðið fyrir hverja losunarheimild, en ein heimild samsvarar einu tonni, er í dag 20,69 evrur. AFP

77% viðbót hjá Air Iceland Connect og meira en tvöföldun hjá Icelandair

Umhverfisstofnun er ekki heimilt að gefa upp upplýsingar um viðskipti hvers fyrirtækis með losunarheimildir, en samkvæmt tölum sem birtar eru á vef ESB má sjá uppsafnaða losun hvers flugfélags fyrir sig yfir árabilið 2013-2017.

Sé Air Iceland Connect skoðað, en það fær 8.011 tonn á ári, sést að það hefur á árabilinu 2013-2017 notað 71.050 tonn, eða sem reiknast sem 14.210 tonn á ári ef magninu er skipt jafnt niður á þetta 5 ára tímabil. Það er 77% viðbót við losunarkvóta flugfélagsins.

Hjá Icelandair er þörfin fyrir viðbótarheimildir enn meiri. Fyrirtækið fær úthlutað 186.364 tonnum á ári, en losun flugfélagsins innan EES- og ESB-svæðisins fyrir árabilið 2013-2017 nemur 2.189.045 tonnum. Það jafngildir 437.809 tonnum á ári sem er meira en tvöfaldur endurgjaldslaus losunarkvóti. Rétt er þó að taka fram að í ljósi mikils vaxtar í ferðamannaiðnaði hér á landi undanfarin ár má gefa sér að losunartölurnar skiptist ekki svona jafnt milli ára, heldur hafi þær frekar farið vaxandi.

Ekki er að finna tölur um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda fyrir WOW air fyrr en fyrir árið 2017, en það ár er flugélagið skráð með 152.382 tonn og gert er ráð fyrir sambærilegu magni ár hvert til ársins 2020. Uppsafnað magn fyrir WOW air sem gefið er upp fyrir árabilið 2013-2017 er svo 616.685 tonn. WOW air er raunar með tvöfalt magn endurgjaldslausra losunarheimilda til ársins 2020, en flugfélagið fær sinn kvóta úr svokölluðum „Special reserve“-sjóði sem ætlaður er nýjum þátttakendum á flugmarkaði og sem úthlutað var fyrst úr árið 2017.

Vöxturinn langt umfram þá stöðu sem var uppi

„Það sem er svo að gerast núna er að verð á losunaheimildum í viðskiptakerfinu er í sögulegu hámarki miðað við síðustu 10 ár,“ segir Margrét Helga og kveður verðið orðið hátt miðað við það sem áður var. „Það er kannski núna farið að nálgast það verð sem upphaflega var lagt upp með.“ Verðið fyrir hverja heimild, en ein heimild samsvarar einu tonni, er í dag 20,69 evrur að því er fram kemur á vefnum Carbon Pulse.

„Þannig að ef við segjum að við séum með flugrekenda sem er að gera upp 500.000 heimildir og hann er að fá úthlutað 200.000 heimildum þarf hann að kaupa 300.000 heimildir á markaði,“ útskýrir Margrét Helga.

Haldi blaðamaður áfram með þá útreikninga má geta sér til þess að sá flugrekandi sé að greiða um 6,2 milljónir evra fyrir losunarheimildir á núvirði, eða um 776 milljónir króna. Sé þessum sömu útreikningum síðan beitt fyrir ofangreint Icelandair-dæmi væri fyrirtækið að greiða að minnsta kosti 5,2 milljónir evra í losunarheimildir á núvirði, en verðið var lægra er viðskipti með losunarheimildirnar fóru fram fyrr á árinu.

Margrét Helga segir alla evrópska flugrekendur í vexti vera að greiða fyrir losunarheimildir, ekki hvað síst þá íslensku. Ástæðu þess segir hún vera þann mikla vöxt sem hafi verið í flugsamgöngum hér á landi frá því endurgjaldslausu losunarheimildirnar voru reiknaðar út frá ákveðnu hlutfalli heildarlosunar árin 2010 og 2014. „ Vöxturinn hefur verið það mikill hjá þeim og langt umfram þá stöðu sem þá var uppi,“ útskýrir hún.

Núverandi losunarheimildum er úthlutað til ársins 2020. „Í iðnaðinum erum við með línulega lækkun á því magni sem fyrirtækin eiga rétt á. Það hefur ekki verið þannig í fluginu, en stendur til að byrja á því 2021,“ segir Margrét Helga.

Verði núverandi kerfi notuð áfram má gera ráð fyrir að endurgjaldslaus losunarheimild flugfélaganna lækki árið 2021. „Það er þó líka verið að vinna að nýju kerfi CORSIA, sem á að taka í notkun 2021. Það er kerfi sem Alþjóðaflugmálastofnunin er að setja upp,“ útskýrir hún. „Þá erum við að tala um miklu fleiri ríki og um leið að fara að ná Ameríkuríkjunum inn.“ Margrét Helga segir þó ekki liggja fyrir í dag hvaða heimildir verði notaðir í CORSIA-kerfinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert