Læknisleikur eðlilegur á ákveðnum aldri

Anna Kristín Newton á ráðstefnunni í morgun.
Anna Kristín Newton á ráðstefnunni í morgun. mbl.is/Arnþór

Anna Kristín Newton sálfræðingur ræddi um muninn á milli barna sem sýna viðeigandi og óviðeigandi kynhegðun á ráðstefnu um forvarnir gegn kynferðisofbeldi á börnum á Hótel Natura í morgun.

Hún hefur lengi unnið með gerendum í kynferðisbrotamálum, meðal annars með ungum einstaklingum. Oft eru þetta börn sem eru í slakri félagsstöðu og „svolítið brotin“.

Byrja snemma að vera kynverur

Hún sagði börn byrja mjög snemma að vera kynverur og sagði kynferðislega hegðun þeirra að megninu til eðlilega. Nefndi hún sem dæmi læknisleik á ákveðnum aldri, samanburð á kynfærum, dónatal, að horfa á nakið fólk, herma eftir kynferðislegri hegðun fullorðinna og sjálfsfróun í einrúmi.

Þarna eru einkennin aldurs- og þroskasamsvarandi hegðun, forvitni, báðir aðilar eru þátttakendur, börnin hætta þegar þeim eru sett mörk, þau fara hjá sér en upplifa ekki skömm.

Þegar börn hegða sér á óviðeigandi hátt reyna þau að koma við kynfæri annarra, tala á klámfengin hátt, stunda sjálfsfróun ekki í einrúmi, þvinga aðra til kynferðislegra athafna, leita á yngri börn, hræða, ógna eða beita ofbeldi.

Þar eru einkennin kynferðisleg hegðun út fyrir aldur eða þroska og hegðun sem veldur öðrum vanlíðan, auk þess sem börnin hætta ekki eftir að hafa fengið ábendingar.

Frá ráðstefnunni í morgun.
Frá ráðstefnunni í morgun. mbl.is/Arnþór

Tala um kynlíf á jákvæðum nótum

Anna Kristín sagði mikilvægt fyrir foreldra að tala við börn um kynlíf á jákvæðum og góðum nótum og benti á að heimurinn mundi tala við börnin ef þeir gerðu það ekki. Í því samhengi benti hún á auglýsingar með kynferðislegum tilvísunum, meðal annars frá fyrirtækinu Dolce & Gabbana. Foreldrar verði jafnframt að grípa inn í ef þeir sjá að eitthvað er að.

Hún velti fyrir sér hvers vegna börn sýna óviðeigandi kynhegðun. Dæmi um það eru að börnin hafa séð eitthvað sem vekur forvitni þeirra eins og klámefni, þetta sé leið til að takast á við neikvæðar tilfinningar, þau sjálf hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi eða orðið vitni að því og að misræmi sé í líkamsþroska þeirra samanborið við andlegan þroska.

Að sögn Önnu Kristínar eiga þessi börn erfitt með að tjá tilfinningar sínar eða þarfir, eiga erfitt með að setja sig í spor annarra, sýna dómgreindarleysi, búi við slaka félagsstöðu og eigi við þroskatengd vandamál að stríða.

Bætti hún því við að um 30% barna sem sýndu af sér óviðeigandi kynhegðun hefðu sjálf orðið fyrir einhvers konar ofbeldi.

Börn sem setja upp grímu

Hún benti á að fullorðnir vilji oft sjá hluti sem börnin geta ekki sýnt þeim. Það sem kemur í veg fyrir að barnið gerir það er að það skammast sín, getur ekki talað um hlutinn sem það gerði og er hrætt við viðbrögð annarra. Þannig setja börn upp grímu, láta sem ekkert sé að en eru í raun að passa sig.

Frá ráðstefnunni.
Frá ráðstefnunni. mbl.is/Arnþór

Drengir segja síður frá 

Sigrún Sigurðardóttir, PhD og lektor við Háskólann á Akureyri, ræddi um kynferðislegt ofbeldi gagnvart drengjum. Hún sagði að 17,8% drengja hefðu orðið fyrir einhvers konar kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur og vitnaði þar í íslenska rannsókn á framhaldsskólanemum frá árinu 2011.

Margir sem hafa orðið fyrir slíku ofbeldi hafa glímt við áfengis- og fíkniefnavandamál í framhaldinu. 

Í máli hennar kom fram að á síðasta ári hefðu 40 manns framið sjálfsvíg hér á landi, flestir drengir eða karlmenn. Sjálfsvíg væri algengasta dánarmein ungra karla og í dag væru 30 tilfelli til rannsóknar vegna lyfjatengdra dauðsfalla það sem af væri ári.

Sigrún benti á að drengir segðu síður frá kynferðislegu ofbeldi, bæði vegna fordóma og ranghugmynda og nefndi í framhaldinu verkefnið Einn blár strengur sem hún kynnti fyrir nemendum sínum í HA. Það er í anda bandaríska verkefnisins 1in6 sem snýst um að einn af hverjum sex drengjum verður fyrir kynferðislegu ofbeldi. Leikarinn Anthony Edwards hefur verið virkur þátttakandi í því verkefni en hann varð sjálfur fyrir kynferðisofbeldi.

Sömuleiðis minntist hún á umræðu um enskan knattspyrnuþjálfara sem var dæmdur fyrir að kynferðisofbeldi gegn ungum drengjum. 

Hún sagði mikilvægt fyrir þá sem ynnu með drengjum að átta sig á því að þeir segðu ekki alltaf frá ofbeldinu. Ef þeir mættu ekki í skólann og væru í fleiri vandræðum gæti það verið merki sem þyrfti að horfa á í forvörnunum.

Í lokum fyrirlestrarins sagði hún að samtök um stofnum meðferðarseturs fyrir ungt fólk í vanda yrðu stofnuð 17. september í Iðnó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert