Ökuskírteini og vegabréf verða dýrari

Er lögin taka gildi verður ögn dýrara að endurnýja vegabréf.
Er lögin taka gildi verður ögn dýrara að endurnýja vegabréf. mbl.is/Golli

Fjöldi gjalda sem ríkið innheimtir fyrir þjónustu eða leyfi og skráningar af ýmsu tagi mun hækka, samkvæmt frumvarpi sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram samhliða fjárlögum ársins 2019. Um er að ræða gjöld sem mörg hver hafa ekki verið uppfærð frá árinu 2010 og eru ákvörðuð með lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

Síðan árið 2010 hefur vísitala neysluverðs hækkað um nær 30% og launavísitala um 70% og því hækka sum gjöld umtalsvert, þeirra á meðal ýmis dómsmálagjöld og svo líka gjöld sem ef til vill snerta almenning oftar í daglegu lífi.

Útgáfa hefðbundins ökuskírteinis hækkar til dæmis úr 5.900 kr. upp í 8.000 kr. og gjöld fyrir útgáfu vegabréfa hækka einnig lítillega, en gert er ráð fyrir að það muni kosta 13.000 kr. fyrir einstaklinga á aldrinum 18-66 ára að endurnýja vegabréf sín, en það kostaði 12.300 kr. áður.

Þá verður dýrara að bæði gifta sig og skilja, en lögskilnaðarleyfi mun til dæmis kosta 6.000 kr. í stað 4.700 kr. áður. Þá mun kosta 2.500 krónur að fá sakavottorð, en það kostar 2.000 kr. í dag. Þinglýsing skjala mun einnig hækka um fimm hundruð krónur, úr 2.000 og upp í 2.500.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar segir að gert sé ráð fyrir því að breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs auki tekjur ríkisins um 500 milljónir króna á ári.

Frumvarpið á vef Alþingis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert