„Tækifæri til að vinda ofan af þessari skrípasögu“

Guðmundar- og Geirfinnsmálið í Hæstarétti.
Guðmundar- og Geirfinnsmálið í Hæstarétti. mbl.is/​Hari

„Núna, virðulegi Hæstiréttur, loksins gefst hinum virðulega rétti tækifæri til að vinda ofan af þessari skrípasögu sem hefur leitt þessar hörmungar yfir þessa einstaklinga,“ sagði Jón Steinar Gunnlaugsson, verjandi Kristjáns Viðars Viðarssonar, í endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálinu sem fer fram í Hæstarétti í dag.

Kristján Viðar var ákærður fyr­ir að bana Geirfinni og hlaut sex­tán ára dóm í Hæstarétti árið 1980.

Jón Steinar, eins og ákæruvaldið í þessu máli, fer fram á að Kristján Viðar verði sýknaður og sagðist Jón Steinar taka hatt sinn ofan fyrir ákæruvaldinu fyrir að fram á sýknu yfir Kristjáni. Minntist hann þess ekki þrátt fyrir áratuga langa málflutningsreynslu að hafa vísað í málflutning ákæruvaldsins, sem verjandi, máli sínu til stuðnings. 

Rakti hann ítarlega skilyrðin fyrir endurupptöku og taldi að breyting á lögum um meðferð sakamála frá árinu 1999, sem gerir Hæstarétti kleift að endurmeta sönnunargögn í endurupptöku á óáfrýjaðu máli, hafi verið gerð með Guðmundar- og Geirfinnsmálið í huga. 

Allar þjóðir heims upplifa það að dómstólar geri mistök

Jón Steinar sagðist vita að dómar Hæstaréttar væru endanlegir en hvatti réttinn til að endurmeta þau sönnunargögn sem lögð voru til grundvallar í málinu á sínum tíma.

„Við vitum það vel að dómsniðurstöður Hæstaréttar eru endanlegar og þannig verður það að vera í réttarríkjum,” sagði Jón Steinar og bætti við að slíkt mætti þó ekki að þýða að ómögulegt væri að taka mál upp að nýju ef eitthvað bjátaði á.

„Allar þjóðir heims upplifa það að dómstólar geri mistök. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa í lögum heimildir til að leiðrétta slík mistök. Þetta er ungt fólk dæmt í áratuga langt fangelsi, þetta eru hræðileg örlög.” 

Rétt eins og endurupptökunefndin telur Jón Steinar nauðsynlegt að leggja til grundvallar þær réttarfarsreglur sem lögreglu, ákæruvaldi og dómsvaldi bar að vinna eftir þegar málið var til meðferðar. Benti hann á að það þýddi ekki að beita nýjum lagareglum með afturkvæmum hætti. Það þýðir þó eingöngu að miða verði lagaumhverfið við þau lög sem voru í gildi á þeim tíma og ætti það ekki að stöðva þá nýju möguleika sem eru til staðar til að meta sönnunargögn að mati Jóns Steinars, sem tók DNA-rannsóknir sem dæmi, og sagði að það sama ætti við um nýja þekkingu á játningum í dag. En játningarnar voru grundvöllur sakfellingar í Hæstarétti á sínum tíma.

Lögreglumenn ekki í leit að sannleikanum

„Þessar játningar urðu til við algjörlega óforsvaranlegar rannsóknaraðferðir. Þetta væri grófara í dag því það er búið að bæta réttarstöðu sakborninga en þetta eru algjörlega óforsvaranlegar rannsóknaraðferðir sem höfðu það aldrei að markmiði að upplýsa málið. Heldur að laga atburði að einhverri kenningu. Þetta var ekki leit að sannleikanum,” sagði Jón Steinar.

Benti hann einnig á þá staðreynd að lögreglumenn eyddu tímunum saman með sakborningum í einangrun, samkvæmt fangelsisdagbók Síðumúlafangelsis, án þess að neinar skýrslur væru gerðar. Voru dómfelldu síðan færðir í skýrslutökur nokkrum tímum seinna. „Öll frásögn sem þessar játningar byggjast á getur einfaldlega verið komin frá lögreglunni. Við vitum ekkert annað.”

„Það er alltaf talið skipta máli við rannsókn á sakamáli hvert var upphafið? hvernig byrjaði þetta? Guðmundarmálið, hvernig byrjaði það? það veit það enginn. Það er staður í málinu þar sem er sagt að einhver orðrómur hafi sett það að stað.”

Sagði hann þá einangrun sem skjólstæðingur sinn og aðrir dómþolar hefðu sætt vera ekkert annað en pyndingar. 

„Það er mikið velferðarmál fyrir réttarríkið á Íslandi að þetta verði, þótt seint sé, leiðrétt nú.“

Endurupptaka málsins er ólík öðrum dómsmálum þar sem bæði ákæruvald og verjendur fara fram á sýknu. Sagði Jón Steinar að þetta leiddi ti þess að Hæstiréttur ætti ekki annan kost en að fallast á kröfurnar sem þannig væru samhljóða gerðar af báðum málsaðilum.

Guðmundar- og Geirfinnsmálið í Hæstarétti.
Guðmundar- og Geirfinnsmálið í Hæstarétti. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert