Eitt á ekki að útiloka annað

Guðrún Björk Ágústsdóttir, fjölskylduráðgjafi hjá Foreldrahúsi.
Guðrún Björk Ágústsdóttir, fjölskylduráðgjafi hjá Foreldrahúsi. mbl.is/Hari

Guðrún B. Ágústsdóttir, fjölskylduráðgjafi hjá Foreldrahúsi, hefur unnið að forvörnum og áfengis- og vímuefnameðferð áratugum saman. Hún segir að það skipti miklu máli hvernig staðið sé að forvörnum og stuðningi við foreldra sem eiga börn í neyslu. Aukin sálfræðiþjónusta og fleiri úrræði á vegum hins opinbera sé af hinu góða en nauðsynlegt sé að þriðji geirinn komi áfram að geðheilbrigðis- og fíkniúrræðum.

Mjög hefur verið rætt um forvarnir og snemmtæka íhlutun þegar kemur að fíknivanda ungs fólks. Ólíkar skoðanir eru uppi um hvað sé rétt í þeim fræðum en Guðrún segir að hjá Foreldrahúsi sé forvarnarstarfinu einkum beint að foreldrunum sjálfum frekar en börnum og ungmennum.

„Við veitum foreldrum aðstoð og stuðning við að takast á við vandann heima við. Áherslan hjá okkur er að styrkja foreldrana og aðstoða þá við forvarnarstarfið inni á heimilinu. Að geta tekið umræðu við börn sín um áfengi og fíkniefni. Að fræða foreldra um hvaða vímuefni eru í gangi og kynna fyrir þeim staðreyndir þannig að þau séu upplýst í stað þess að unglingurinn stjórni umræðunni,” segir Guðrún.

Starfsfólk Foreldrahúss vinnur meðal annars forvarnarstarf meðal foreldra ungmenna sem …
Starfsfólk Foreldrahúss vinnur meðal annars forvarnarstarf meðal foreldra ungmenna sem neyta fíkniefna. mbl.is/Hari

Mjög er fjallað um fíkniefni, ekki síst kannabis, á netinu og neyslan oft sýnd í jákvæðu ljósi á síðum sem ungmenni fara inn á. Undanfarin ár hafa fleiri heimilað neyslu og framleiðslu slíkra efna. Stóru tóbaksfyrirtækin eru byrjuð að fjárfesta í þessum iðnaði og áfengisframleiðendur hafa þegar  veðjað á kannabis sem vænlegan fjárfestingarkost.

Sjá nánar hér 

Umfjöllun Forbes

Guðrún bendir á að margir unglingar sem prófa vímuefni eiga aldrei eftir að þróa með sér alvarlegan fíknivanda en það breyti því ekki að þau sem það gera þurfa á hjálp að halda. Flestir þeirra sem glíma við fíkn ná að hætta neyslu síðar og þá oft með aðstoð víða að, bæði frá fjölskyldu og fagaðilum. Miklu skipti að í boði sé fjölbreytt flóra úrræða fyrir ungt fólk sem  þarf á aðstoð að halda til þess að hætta í neyslu. Bæði með af hálfu ríkis og sveitarfélaga sem og þriðja geiranum.

Hvaða lyf eru geymd á heimilinu og hver er afstaða …
Hvaða lyf eru geymd á heimilinu og hver er afstaða okkar til lyfja getur skipt máli. mbl.is/Valgarður Gíslason

Hvaða lyf eru til á heimilinu?

Að sögn Guðrúnar er algengast að neyslan byrji með áfengi og kannabis á unglingsaldri og nauðsynlegt að foreldrar ræði við börn sín um hættuna sem fylgir vímuefnum. Misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja hefur aukist meðal ungs fólks og segir hún tímabært að fólk hugsi sinn gang þar.

„Rannsóknir hafa sýnt að Íslendingar nota mjög mikið af lyfjum, svo sem verkjalyfjum og svefnlyfjum. Foreldrar ættu að hafa í huga hvaða lyf eru til á heimilinu og hvar eru þau geymd. Því það er sjaldnast þannig að lyf sem eru misnotuð sé ávísað á viðkomandi heldur koma lyfin yfirleitt annars staðar frá. Viðhorf foreldra til lyfja hefur áhrif á unglinga. Hvaða lyf eru til á heimilinu og hvar eru þau geymd?” segir Guðrún. 

Auk fræðslu fyrir foreldra standa starfsmenn Foreldrahúss fyrir sjálfstyrkingarnámskeiðum fyrir börn og unglinga og hafa gert í mörg ár. Guðrún segir að námskeiðin séu einkum hugsuð fyrir krakka sem eru að takast á við einhverja erfiðleika, svo sem feimni, erfitt að hemja skap og fleira. Að styrkja sjálfsmynd þeirra og gera þeim auðveldara fyrir að segja nei þegar kemur að vímuefnum og setja mörk á þessu sviði sem fleirum.

Forvarnarstarf strax í leikskóla

Að sögn Guðrúnar á forvarnarstarf að hefjast strax í leikskóla og það á ekki að beinast að hræðsluáróðri í garð vímuefna heldur því að styrkja börn og kenna þeim að vinna með og þekkja eigin tilfinningar. Að setja mörk og kenna þeim aðferðir sem hafa verið þróaðar á svæðum þar sem börn hafa búið við gríðarlega erfiðar aðstæður, svo sem á átakasvæðum.

AFP

„Við eigum að einbeita okkur að snemmtækum inngripum áður en neyslan er orðin alvarleg hjá unglingnum því þá er svo miklu auðveldara að eiga við vandann. Við getum tekið ungling sem hefur hingað til verið mikið einn inni í herbergi, kannski mikið í tölvunni og lítið úti með öðrum krökkum, sem dæmi. Hann á fáa vini og foreldrarnir hafa áhyggjur því að hann einangrist og eru alltaf að hvetja hann til þess að fara eitthvað út að hitta aðra krakka. Allt í einu, þegar viðkomandi er 13-15 ára, fer hann að blómstra, á fullt af vinum út um allt, í öðrum skólum, öðrum hverfum og jafnvel öðrum bæjarfélögum. Alltaf að fara eitthvað að hitta þessu nýju vini og foreldrarnir mjög glaðir og ánægðir með breytinguna á barninu. Síðan kemur í ljós að unglingurinn er farinn að nota kannabis og heimurinn hrynur hjá foreldrunum. Hvaða lausn er í boði fyrir foreldrana þegar hingað er komið? Að reka unglinginn aftur inn í herbergi á bak við tölvuna? Nei það er ekki lausnin og ekki heldur að láta sem ekkert ami að. Heldur eigum við að styðja ungmenni áður en þau komin á þessa braut. Koma í veg fyrir að þau fari þessa leið í lífinu. Leið sem þau kannski finna í gegnum tölvuna inni í herbergi því salan og spjallið er á netinu. Þar kynnast þessir krakkar og það eru vímuefnin sem tengja þau saman.

Vímuefnanotkun meðal ungmenna er staðreynd

Foreldrum þykir mjög gott að geta leitað til okkar þar sem þeir geta fengið ráð og stuðning frá fagfólki og það strax. Í sumum tilvikum eru málin þannig að við aðstoðum foreldra við að leita lengra, það er til barnaverndar, SÁÁ eða annarra. Við fáum líka oft beiðnir frá skólum, svo sem skólastjórum, námsráðgjöfum og  skólahjúkrunarfræðingum sem annað hvort foreldrar hafa haft samband við eða starfsfólk skólans skynjar að ungmenni og fjölskyldur þeirra þurfa á hjálp að halda,” segir Guðrún.

Hún segir að vímuefnanotkun, hvort sem það er áfengi eða fíkniefni, meðal ungs fólks sé staðreynd og mörg þeirra hefji neyslu um svipað leyti og þau ljúka grunnskólanámi. Í flestum tilvikum þróar fólk ekki með sér fíkn en samt sem áður þá er alltaf ákveðið hlutfall sem gerir það og það hlutfall breytist ekki mikið á milli ára eða áratuga.

„Því er svo mikilvægt að setja aukið fjármagn í forvarnir og meðferðarúrræði fyrir ungmenni. Við erum alls ekki að sinna þessum aldurshóp nægjanlega vel, það er áður en þau verða átján ára og það er ekki boðlegt að úrræðin sem í boði eru fyrir ungmenni sé meðferð með eldra fólki þar sem ungt fólk getur jafnvel verið í hættu.

Þau þurfa á sérstökum úrræðum að halda sem eru miðuð að þeim og þeirra þörfum.  Megum ekki gleyma því að það er hægt að hjálpa flestum þeirra en það getur tekið tíma og stundum þurfa þau á ítrekaðri aðstoð að halda,” segir Guðrún.

Tveggja til þriggja vikna bið getur verið of löng bið

Aukið fjármagn hefur verið sett í sálfræðiþjónustu fyrir börn á heilsugæslustöðvum en biðlistar eru eftir þjónustunni. Guðrún segir að það sé mjög gott að þessi þjónusta sé í boði á heilsugæslustöðvum en tveggja til þriggja mánaða bið eftir viðtali sé of langur tími fyrir unglinga.

„Við verðum að hlúa að unga fólkinu okkar. Við erum að sjá ungmenni deyja og það á ekki að gerast á okkar vakt. Eins verðum við að styðja foreldra sem missa börnin sín úr fíknidauða eða sjálfsvígum. Lausnin er ekki að loka á grasrótarsamtök líkt og tilhneiging er til hjá stjórnvöldum. Þriðji geirinn á að vera valmöguleiki fyrir fólk þar sem nálgunin er oft mun persónulegri heldur en hjá stofnunum. Eins er reksturinn einfaldari og mun ódýrari en sjúkrahúsþjónusta,” segir Guðrún.

Eitt af því sem foreldrar ungmenna sem eru í neyslu tala um er við fordóma sem þeir mæta í samfélaginu. Guðrún tekur undir þetta og segir foreldra oft mæta skelfilegum fordómum. Einn misskilningurinn er sá að það séu bara börn frá brotnum heimilum sem lenda í neyslu. Auk þess sem það ætti enn frekar á ýta undir að þær fjölskyldur fái stuðning, segir hún því það er sennilega sá hópur sem þarf á mestri aðstoð samfélagsins að halda í stað fordóma.

Fordómar og sektarkennd

„Þetta er mjög erfitt fyrir foreldra. Í fyrsta lagi að eiga barn sem er í neyslu og hvað þá að mæta fordómum frá samfélaginu. Við fáum oft foreldra til okkar sem þjást af sektarkennd og telja að það megi rekja það til þeirra að börn þeirra noti vímuefni. Þetta er ekki foreldrunum að kenna og við reynum að hjálpa foreldrunum við að hætta meðvirkni. Oft þarf hins vegar að laga samskiptin á heimilinu og kenna foreldrum hvernig þeir eigi að tala við unglinginn. Þýðir ekkert að öskra á ungmennið og gera allt brjálað en um leið á ekki að sætta sig við að viðkomandi noti vímuefni. Eins verður að passa upp á önnur börn á heimilinu því langveikt barn, eins og unglingar sem glíma við fíknivanda eru, hefur áhrif á alla í fjölskyldunni. Ekki síst systkini sem oft upplifa það að fókusinn er allur á veika barnið,” segir Guðrún.

Í byrjun september var undirritað samkomulag um samstarf ríkis og sveitarfélaga á sviði barnaverndar þar sem tryggja á að börn verði sett í forsæti í allri nálgun, tryggja snemmtæka íhlutun og samfellu í þjónustu.

Guðrún segir þetta jákvætt skref og vonandi verði það til þess að færri ungmenni þurfi á meðferð að halda í framtíðinni. En langtímameðferðarúrræði fyrir ungmenni eru nauðsynleg og þau eru dýr en um leið hafa þau sýnt sig og sannað í nágrannalöndunum. Að með langtímameðferð sé hægt að koma ungu fólki aftur til lífs sem hlýtur að vera markmið samfélagsins alls.

„Ísland verður aldrei vímuefnalaust en við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að aðstoða þá sem þurfa á aðstoð að halda. Að tryggja það að sem flestir lifi af,” segir Guðrún.

mbl.is