Rökstuðningi skilað til Landsréttar

Til stóð að yfirheyra fólkið í gær en það hefur …
Til stóð að yfirheyra fólkið í gær en það hefur enn ekki verið gert. mbl.is/Eggert

Lögreglan á Suðurlandi hefur skilað rökstuðningi til Landsréttar vegna gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir konu sem handtekin var á vettvangi brunans að Kirkjuvegi 18 á Selfossi í síðustu viku. Konan kærði gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Landsréttar.

Kona og maður voru handtekin á miðvikudaginn í síðustu viku, en konan var gestkomandi í húsinu þar sem eldsvoði varð karli og konu að bana. Þau voru bæði úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald og hafa sætt einangrun á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Að sögn Odds Árnasonar yfirlögregluþjóns hefur ákvörðun ekki verið tekin um framlengingu gæsluvarðhalds.

Til stóð að yfirheyra fólkið í gær en það hefur enn ekki verið gert og á Oddur ekki von á því að það verði gert fyrr en á morgun.

Ekki er ljóst hvenær Landsréttur mun úrskurða í málinu, en það verður í fyrsta lagi á morgun. Gæsluvarðhald yfir fólkinu rennur út á fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert