Farið talsvert nærri stjórnarskránni

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra. mbl.is/Eggert

„Sífellt fleirum líður eins og Evrópusambandið beri ekki þá virðingu fyrir tveggja stoða kerfinu sem okkur finnst það eiga að gera. Það eru fleiri mál þar sem gengið hefur verið ansi langt gagnvart framsalsheimildum okkar miðað við stjórnarskrá okkar.“

Þetta sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, á Alþingi í dag þar sem rætt var um þriðju orkutilskipun Evrópusambandsins sem til stendur að taka upp í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum.

Vísaði Þórdís þar til tveggja stoða kerfis EES-samningsins sem kveður á um að EES-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein eigi ekki að falla undir völd stofnana Evrópusambandsins heldur aðeins stofnana á vegum Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA).

Fleiri ráðherrar hafa gagnrýnt þróun EES-samningsins í þessa átt og sakað Evrópusambandið um virðingarleysi gagnvart tveggja stoða kerfinu. Þar á meðal Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Málið á könnu Þórdísar og Guðlaugs Þórs

Ljóst er að fyrirhuguð innleiðing þriðju orkutilskipunarinnar hér á landi hefur mætt vaxandi andstöðu og ekki síst innan stjórnarflokkanna þriggja, Sjálfstæðisflokksins, Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs og Framsóknarflokksins auk Miðflokksins.

Miðað við niðurstöður skoðanakönnunar sem gerð var síðasta vor af fyrirtækinu Maskínu fyrir Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru rúmlega 80% landsmanna andvíg því að færa völd yfir íslenskum orkumálum til evrópskra stofnana.

Þingmenn úr röðum Sjálfstæðisflokksins hafa lýst miklum efasemdum um innleiðingu þriðju orkutilskipunarinnar. Nú síðast Brynjar Níelsson í útvarpsþættinum Þingvellir á K100 um helgina þar sem hann sagðist vilja komast hjá því að innleiða hana í lengstu lög.

Til stendur að leggja fram þingmál um innleiðingu þriðju orkutilskipunar Evrópusambandsins á Alþingi í febrúar samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Málið er á könnu tveggja ráðherra, Þórdísar annars vegar og hins vegar Guðlaugs Þórs.

Sjálfsagt að ræða þróun EES-samningsins

Þórdís sagðist á Alþingi í dag ekki útiloka að Ísland myndi leggjast gegn því að innleiða orkutilskipunina en rifjað var upp í umræðunni á þingi að hún hefði áður sagt að hún væri tilbúin í þann leiðangur ef til þess kæmi að beita neitunarvaldi Íslands.

„Þess vegna loka ég ekki á að ef við ætlum okkur að hefja eitthvert samtal við Evrópusambandið um EES-samninginn og um frekara valdaframsal er ég alveg til í að ræða það,“ sagði Þórdís en sagði aðspurð að hún vildi ekki slíta EES-samningnum.

Rifjaði hún upp að samkvæmt EES-samningnum væri heimilt að neita upptöku einstakra lagagerða Evrópusambandsins en hins vegar hefði slíku neitunarvaldi aldrei verið beitt í raun. Fyrir vikið lægi ekki nákvæmlega fyrir hvaða afleiðingar það hefði.

Þórdís sagði hins vegar að sjálfsagt væri að ræða það hvernig EES-samningurinn væri að þróast og hvort rétt væri að stíga niður fæti á einhverjum tímapunkti, staldra við og spyrja hvort þróunin væri á þann hátt að Íslendingar væru sáttir við hana. 

mbl.is

Bloggað um fréttina