Framlengja farbann í skútumáli

Frá þingfestingu málsins í morgun. Maðurinn játaði að hafa tekið …
Frá þingfestingu málsins í morgun. Maðurinn játaði að hafa tekið Inook í heimildarleysi en neitaði ákæru eins og hún var sett fram. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Héraðsdómur Vestfjarða féllst á kröfu lögreglunnar á Ísafirði um að framlengja farbann yfir manninum sem ákærður hefur verið fyrir að stela skútu úr höfninni á Ísafirði í síðasta mánuði og sigla henni í burtu.

Í morgun var málið þingfest og greindi mbl.is þá frá því að maðurinn hafi neitað sök í málinu. Játaði hann að hafa tekið skútuna í heimildarleysi, en neitaði hins vegar fyrir þjófnað eða að hafa ætlað að fara á skútunni til Færeyja eða Skotlands. Þá kom fram að lögreglan hefði farið fram á lengra farbann yfir manninum.

Dómari komst í dag að niðurstöðu um að verða við kröfu lögreglunnar og var farbannið framlengt til 10. desember.

mbl.is