Kvöddumst í íbúðinni okkar í London

Þorsteinn Guðjónsson og Kristinn Rúnarsson voru í hópi reyndustu fjallamanna …
Þorsteinn Guðjónsson og Kristinn Rúnarsson voru í hópi reyndustu fjallamanna landsins á þessum tíma, þrátt fyrir ungan aldur. Lík þeirra hafa nú loks fundist. Forsíða Morgunblaðsins 26. október 1988

„Þeir voru alveg óskaplega skemmtilegir félagar. Það var gaman að vera með þeim. Það var enginn heragi í kringum þessa menn, en þeir voru líka feikilega góðir fjallamenn,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur í samtali við mbl.is um þá Kristin Rúnarsson og Þorstein Guðjónsson.

Mbl.is greindi frá því í gær að lík tveggja ís­lenskra fjall­göngugarpa, þeirra Krist­ins og Þor­steins, hefðu nýverið fund­ist í Nepal, 30 árum eft­ir að þeir fór­ust á niður­leið af fjall­inu Pu­mori í októ­ber árið 1988, 27 ára að aldri. Var það banda­rísk­ur fjall­göngumaður sem rakst á lík þeirra og til­kynnti fund­inn.

Magnús Tumi ritaði minningu um þá félaga í blað Íslenska alpaklúbbsins 1989, en þar sagði m.a: „Þorsteinn og Kiddi voru bundnir sterkum vináttuböndum, þó að þeir væru um margt ólíkir. Þorsteinn var opinn persónuleiki og hvers manns hugljúfi, allra manna kátastur á góðri stund. Á fjöllum tókst honum að sameina kraftinn til að ná markinu, sínu létta lundarfari og allskyns fyndin uppátæki hjálpuðu til við að eyða spennunni, sem alltaf fylgir erfiðum klifurleiðum. Kiddi var hægari og yfirvegaðri, en ákaflega hreinn og beinn og átti gott með að komast að kjarna málsins, þegar leysa þurfti einhvern vanda.

Það er sárt að sjá á bak svo góðum vinum og íslensk fjallamennska hefur ekki orðið fyrir þyngra áfalli. Mestur er samt söknuður aðstandenda og dapurlegt er, að Kiddi skuli ekki hafa lifað það, að sjá Kristin Steinar litla koma i heiminn.“

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir þá Þorstein og Kristinn hafa …
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir þá Þorstein og Kristinn hafa verið skemmtilega félaga og góða fjallamenn. Ljósmynd/HÍ

Síðasta verk okkar saman að mála íbúðina

Sjálfur var Magnús Tumi ásamt konu sinni Önnu Líndal í framhaldsnámi í London er þeir félagar hurfu.  „Þeir gistu hjá okkur á leiðinni til Himalaja. Við vorum með íbúð á leigu sem var voðalega skítug og við sömdum við leigusalann um að við myndum mála hana og það var síðasta verk okkar saman. Við máluðum saman íbúðina sem að við Anna konan mín höfðum á leigu saman. „Við kvöddumst þegar þeir yfirgáfu íbúð okkar í London á leið til Himalaja,“ segir hann.

Magnús Tumi, Kristinn og Þorsteinn voru jafnaldrar og samtíðamenn í Íslenska Alpaklúbbnum, sem var stofnaður 1977. Hann segir mikla grósku hafa verið í íslenskri fjallamennsku á árunum þar á eftir. Klifur og fjallgöngur hafi náð fótfestu á þessum tíma og töluverður hópur farið að stunda þetta. Námskeið voru haldin og ferðir farnar um fjöll og firnindi.

„Menn voru alltaf að finna nýjar klifurleiðir í klettum og fjöllum að vetrarlagi,“ segir hann og nefnir sem dæmi ferðir á norðurhliðina á Skessuhorni. „Þetta var gróskumikið 10-15 ára tímabil og það var mikið af nýjum hlutum að gerast. Þetta var óskaplega spennandi tími og þeir komu inn í þetta eins og aðrir,“ segir Magnús Tumi og kveður þá Kristin og Þorstein hafa verið leiðandi í hópinum.

Hann segir það líka hafa verið blendnar tilfinningar er Anna Lára Friðriks­dótt­ir, vin­kona hans og þeirra Krist­ins og Þor­steins, tilkynnti honum að þeir væru fundnir. „Manni bæði bregður við þegar þetta rifjast upp, en svo finnst manni líka gott að þeir séu ekki lengur týndir. Maður var samt búinn að sætta sig við það fyrir löngu síðan að þeir fóru og komu ekki aftur.“

Söknuður þegar svona gefandi félagar hverfa

Magnús Tumi og Kristinn voru einnig saman í framhaldsskóla og segir hann þá hafa verið góða vini. „Þetta var og er góður vinahópur,“ bætir hann við og segir þá Þorstein og Kristin hafa átt þar stóran þátt. „Það var alltaf skemmtilegt í kringum þá og þess meiri var söknuðurinn þegar svona gefandi félagar hverfa.

Á þeim tíma var þetta mikið áfall fyrir þennan vinahóp. Núna rifjast upp fyrir manni þessi góði og skemmtilegi tími og þessir góðu félagar sem þeir voru,“ segir Magnús Tumi. Þorsteinn hafi verið kátur, skemmtilegur og uppátækjasamur. „Það var alltaf líf og fjör í kringum hann. Kiddi var rólegri í tíðinni, en ofsalega skemmtilegur félagi. Þeir bættu hvor annan upp, voru mjög góðir vinir og gott teymi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert