Utanvegaakstur alvarlegt mál

Lögreglan á Suðurlandi tekur akstri utan vega alvarlega.
Lögreglan á Suðurlandi tekur akstri utan vega alvarlega. Skjáskot/YouTube

Lögreglan á Suðurlandi tekur utanvegaakstur alvarlega og er að reyna að auka eftirlit og sýnileika í samvinnu við landverði og Umhverfisstofnun. Aðalvarðstjóri lögreglunnar á Höfn segir að mál manns sem spændi upp mosa í september sé væntanlegt á borð lögreglu.

„Þetta atvik átti sér stað í september, eftir því sem við best vitum. Við tökum þetta alvarlega og vinnum að þessu,“ segir Jón Garðar Bjarnason, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Höfn.

Úkraínski ferðamaðurinn hefur beðist afsökunar á spóli sínu. Jón Garðar segist ekki geta tjáð sig sérstaklega um hverjar lyktir málsins verði eða hvort erfiðara reynist að sekta manninn vegna þess að hann er farinn af landi brott.

Fjórir franskir ferðamenn voru sektaðir um samtals 400 þúsund krónur fyrir svipað athæfi í byrjun september. Þá tókst landvörðum að hafa hendur í hári mannanna og gengust þeir við brotum sínum. 

Vissulega flækjast mál þegar menn eru farnir úr landi og kannski ekki einhverjir sérstakir samningar eða slíkt á milli landa.

Jón Garðar ítrekaði að embætti lögreglustjóra á Suðurlandi taki akstur utan vega alvarlega. „Við erum að reyna að auka eftirlit með okkar fallega landi.“

mbl.is