Uppsagnarfresturinn lengdur um tvo mánuði

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ON, Helga Jónsdóttir, forstjóri OR, og …
Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ON, Helga Jónsdóttir, forstjóri OR, og Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður OR, kynntu skýrslu innri endurskoðunar á blaðamannafundi fyrr í mánuðinum. mbl.is/Árni Sæberg

Uppsagnarfrestur Áslaugar Thelmu Einarsdóttur og Bjarna Más Júlíussonar, fyrrverandi starfsmanna Orku náttúrunnar, verður lengdur um tvo mánuði. Þetta var ákveðið á fundi stjórnar fyrirtækisins á föstudaginn. Þá var einnig ákveðið að ekkert yrði aðhafst frekar vegna bréfs sem Einar Bárðarson, eiginmaður Áslaugar, sendi á Orkuveituna vegna málsins.

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, segir í samtali við mbl.is að stjórn fyrirtækisins hafi talið sanngirni felast í því að lengja uppsagnarfrest bæði Bjarna og Áslaugar í ljósi aðstæðna. Miðað hafi verið við þann tíma sem tók innri endurskoðun Reykjavíkur að vinna skýrslu um vinnustaðarmenningu og starfsmannamál fyrirtækisins.

Segir hún að uppsagnartími sé alla jafna hugsaður sem sá tími sem fólk hafi til að finna sér annað starf og að meðan þessi vinna innri endurskoðunar hafi staðið yfir hafi verið ákveðinn óvissutími.

Áslaug Thelma Einarsdóttir og Einar Bárðarson.
Áslaug Thelma Einarsdóttir og Einar Bárðarson. mbl.is/Golli

Spurð um hvort fyrirtækið ætli að aðhafast eitthvað vegna bréfs sem Einar sendi stjórnendum samstæðunnar segir Berglind að ekkert verði gert. Í lok bréfs­ins seg­ir Einar að hægt sé að „klára málið okk­ar á milli“ eða fleir­um verði blandað í málið og fer hann fram á svar inn­an ákveðinna tíma­marka. Sagði Helga Jónsdóttir, starfandi forstjóri OR að hún upplifði póst Einars sem hótun. Berglind segir að stjórnin hafi ekki talið það þjóna hagsmunum fyrirtækisins eða öðrum að taka þetta mál lengra.

„Hann sendi þetta bréf í geðshræringu eins og hann hefur sjálfur sagt. Við virðum það,“ segir Berglind.

Eftir að niðurstaða innri endurskoðunar var kynnt var Berglindi og Helgu falið að koma með tillögur að úrbótum bæði hjá Orku náttúrunnar og OR. Berglind segir þá vinnu vera í gangi og hafi byrjað í síðustu viku þegar allir starfsmenn fyrirtækisins hafi komið saman á fimmtudaginn. „Sumar úrbætur taka lítinn tíma, en aðrar lengri tíma,“ segir hún og bætir við að nú sé mikill fókus hjá fyrirtækinu að horfa fram veginn.

Bjarni Már Júlíusson fyrrverandi framkvæmdastjóri ON.
Bjarni Már Júlíusson fyrrverandi framkvæmdastjóri ON. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is