„Sorglegar tilraunir“ hjá Sigmundi

Alþingi.
Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn Framsóknarfélags Grindavíkur (FG) tekur undir yfirlýsingu Framsóknarfélags Reykjavíkur frá því fyrr í dag þar sem hegðun þingmanna á barnum Klaustri var fordæmd.

Stjórn FG segir einnig að svo virðist sem engin iðrun sé hjá formanni Miðflokksins vegna málsins. Þar er vísað í grein sem Freyja Haraldsdóttir skrifaði eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hringdi í hana.

Þess er krafist að allir þingmennirnir skuli víkja úr starfi.

„FG fordæmir harðlega þau ummæli sem féllu á veitingastaðnum Klaustur 20. nóvember sl. Þessi niðrandi og ógeðfelldu ummæli í garð kvenna, fatlaðra, samkynhneigðra og fleiri hópa eru óafsakanleg. Við könnumst heldur ekki við það að svona umræða sé algeng, okkur hefur alla vega ekki verið boðið í þær samræður.

Einnig hörmum við að bæjarfulltrúar Miðflokksins í kjördæmi okkar, einungis harmi þessi skelfilegu ummæli, en fordæma ekki. Að það sé komin ásættanleg lausn að þeirra mati, er miður og liður í meðvirkni.

Viðtal við Freyju Haraldsdóttur sem birt var í kvöld (sunnudag), lýsir [því] að það virðist ekki vera nein iðrun hjá formanni Miðflokksins, allt var þetta misskilningur að mati hans. Þar eru sorglegar tilraunir til að ljúga sig út úr málinu.

Traust og virðing Alþingis er rúin, stjórn FG telur að viðkomandi þingmenn verði að víkja, annað er ekki ásættanleg lausn,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is