Þess fullviss að yfirbætur verði gerðar

Jón Þór hitti fólk úr forystu flokksins fyrr í kvöld …
Jón Þór hitti fólk úr forystu flokksins fyrr í kvöld og hefur ákveðið að taka sæti Gunnars Braga. mbl.is/Þorsteinn Friðrik

„Eftir að hafa rætt mjög opinskátt um málið, aðdraganda þess og það sem fram undan er, þá er ég fullviss um að menn eru mjög miður sín yfir þessu og fullur hugur að baki því sem sagt hefur verið,“ segir Jón Þór Þorvaldsson, varaþingmaður Miðflokksins.

Jón Þór hitti fólk úr forystu flokksins fyrr í kvöld og hefur hann ákveðið að taka sæti Bergþórs Ólasonar á Alþingi á morgun. „Ég var búinn að gefa það út að ég myndi ekki taka sætið nema ég væri þess fullviss að menn myndu sýna iðrun, og að menn myndu í alvöru ætla að gera yfirbót.“

Hann segist ekki tilbúinn að kvitta upp á það sem tíðkist gjarnan í pólitík, að það sé látið blása yfir og svo sé allt í lagi.

Jón Þór segist fullviss um að Miðflokkurinn stígi nú fram og verði í forystu og til fyrirmyndar í þessum málum til frambúðar, og „laga þetta, sem hefur kannski tíðkast þó að það hafi ekki náðst á upptöku.“

„Það hefur enginn betri hvata til þess heldur en við, því þetta kemur jú upp hjá okkur.“

mbl.is