„Hvað gerum við nú?“

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hvað gerum við nú?“ spurði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag og beindi spurningunni til Katrínar Jakobsdóttir forsætisráðherra vegna máls þingmanna sem fóru illum orðum um samþingmenn sína og aðra á bar í miðborg Reykjavíkur á dögunum. Forsætisráðherra sagði mikilvægt að tryggja að siðareglum þingmanna væri fylgt og að hart væri tekið á því ef það væri ekki gert.

Logi sagði að þingmenn bæru sameiginlega ábyrgð á að Alþingi væri starfshæft og gæti unnið þjóðinni gagn. „Við séum mannsekjur sem berum virðingu fyrir starfinu og fólkinu sem kaus okkur en ekki síst að fólk geti borið virðingu fyrir okkur.“ Áfram yrði að vera hægt að takast á beittan hátt um pólitísk álitamál en standa yrði gegn mannfyrirlitningu, kvenfyrirlitningu og fordómum.

Sagðist Logi telja forsætisráðherra geta leikið stórt hlutverk í því samtali sem þyrfti að eiga sér stað. Hún hefði þann trúverðugleika sem þyrfti til þess og sagðist Logi treyst henni til þess. Katrín sagði að sú orðræða sem rætt hafi verið um að undanförnu væri dapurleg og hafi einkennst af kvenfyrirlitningu og fordómum og slíkt orðaræða væri óafsakanleg.

Mikilvægt að þingið tæki á málinu

Katrín sagði ennfremur að þær siðareglur sem þingmenn hefðu sett sér væru góðar að hennar mati. Mikilvægt væri að forsætisnefnd hefði ákveðið að taka á málinu og kalla til þá ráðgjafa sem Alþingi hefði skipað í þeim efnum. Það væri mjög mikilvægt að þingið virti þá ferla sem það hefði sjálft sett og tæki siðareglur þingmanna til umræðu og hvernig væri hægt að tryggja að þeim væri betur fylgt í framtíðinni.

„Ég tel að allt þetta mál sýni okkur að við berum sameiginlega ábyrgð á því núna að fara yfir þær reglur, taka þær til umræðu í okkar hópi og tryggja að við getum sameiginleg hafið þessa mikilvægu samkomu fyrir samfélagið aftur til vegs og virðingar.“

Logi tók undir með Katrínu og sagði þingmanna bíða stórt verkefni. „Síðustu dagar hafa haft gríðarleg áhrif á okkur og það eru opin sár sem þarf að græða. Ég vil taka það fram að ég treysti forseta, forsætisnefnd og siðanefnd mjög vel fyrir því starfi sem hún á fyrir höndum. En við þurfum líka að setjast niður hér saman og ræða hvaða áhrif þetta hefur á þingmenn, á þingstörfin, á stjórnmálin í heild sinni, á jafnréttisbaráttu kynjanna, á baráttu hinsegin fólks og fatlaðra, hvernig við getum tryggt að við sem þingmenn getum unnið áfram með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi, hvernig við getum aftur aukið traust og virðingu þingsins.“

Þingmenn bera ábyrgð á hegðun sinni

Katrín sagði það sína tilfinningu að mikil samstaða væri á Alþingi um að mikilvægt væri að bregðast hart við þegar svona mál kæmu upp. „Það er stórkostleg áskorun fyrir okkur öll, og við höfum oft rætt það í þessum sal, hvernig við getum byggt upp traust á stjórnmálum og Alþingi. Þetta atvik er ekki síst dapurlegt því að við vorum að sjá það traust þokast upp á við í þeim mælingum sem eru gerðar með reglubundnum hætti á trausti til Alþingis.“

Forsætisráðherra sagði að þó þingmenn væru kosnir til þess að standa við sína sannfæringu bæru þeir líka ábyrgð á sinni eigin hegðan. „Við hljótum að gera þær kröfur um leið og við setjum okkur siðareglur að hvert og eitt okkar fari yfir þær siðareglur, taki það til sín að bera ábyrgð á sinni eigin hegðan, hvort sem við erum stödd í opinberum erindagjörðum eða hvar sem við erum stödd í almenna rýminu, því að við erum alltaf kjörnir fulltrúar, sama hvar við erum.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina