„Stutta svarið er nei“

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir að ekkert í samskiptum hans og Gunnars Braga Sveinssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, um skipan Geirs H. Haarde sem sendiherra í Bandaríkjunum, hafi gefið til kynna að Gunnar Bragi ætti von á skipan í sendiherrastöðu af hálfu Sjálfstæðisflokksins í framtíðinni. Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. 

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Bjarna um þessi ummæli Gunnars Braga sem heyrðust á upptökunni á Klaustri þar sem Gunnar Bragi segist eiga inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum vegna skipunar sinnar á Geir sem sendiherra. Bjarni sagði í samtali við mbl.is fyrir helgi að það sem fram kemur á upptökunni sé „einfaldlega tóm þvæla.“

Tók skipan Geirs fagnandi

Þórhildur Sunna spurði hvort Bjarni hefði átt nokkurs konar samskipti, formleg eða óformleg, með Gunnari Braga þar sem skipan Geirs var rædd. Bjarni sagðist hafa átt ótal fundi með Gunnari Braga um hin ýmsu mál. „Á einum fundinum sem ég sat með honum tilkynnti hann mér að hann hefði tekið ákvörðun um að skipa Geir H. Haarde sendiherra. Honum fannst það við hæfi enda var um að ræða fyrrverandi formann flokks míns, og ég tók því fagnandi,“ sagði Bjarni.

„Hefur kannski væntingar í ljósi reynslu sinnar“

Þá spurði Þórhildur Sunna hvort Bjarni byggi yfir einhverri vitneskju sem gæti hafa gefið Gunnari Braga til kynna væntingar um skipun í sendiherrastöðu af hálfu Sjálfstæðisflokksins?

„Stutta svarið við þessu er nei,“ svaraði Bjarni. Hann sagði almenna svarið við þessu vera að Gunnar Bragi er fyrrverandi utanríkisráðherra og margir slíkir hafa endað í utanríkisþjónustunni og nefndi hann sem dæmi tvo fyrrverandi þingmenn Samfylkingarinnar.

Bjarni sagði að ekkert hafi komið fram á fundum hans og Gunnars Braga sem gaf sérstakt tilefni til stöðu sendiherra í framtíðinni. „Hann kannski hefur kannski einhverjar væntingar í ljósi reynslu sinnar til þess að eitthvað slíkt geti gerst í framtíðinni, en það er ekki á grundvelli einhverra loforða sem hann hefur fengið,“ svaraði Bjarni.


mbl.is