Kom Þorsteini ekki á óvart

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins. mb.is/Kristinn Magnússon

„Ég ætla ekkert að tjá mig sérstaklega um mál Ágústar. Það hefur bara sinn gang og er auðvitað bara jafn sorglegt og hitt,“ segir Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is, en hann sagði aðspurður í Vikulokunum á Rás 1 í morgun um mál Ágústar Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, að það hefði því miður ekki komið sér á óvart að mál af svipuðum toga og Klaustursmálið kæmi upp í framhaldinu. Ágúst hlaut áminningu trúnaðarnefndar flokks síns fyrir að áreita konu kynferðislega í byrjun síðasta sumars og fara síðan særandi orðum um hana þegar hún hafnaði honum.

Varðandi Klaustursmálið segir Þorsteinn: „Við í Miðflokknum ætlum okkur að snúa þessu kyrfilega við í okkar röðum. Það er auðvitað fullkomlega mál að linni.“ Vísar hann til talsmáta þingmanna sem sátu fund á barnum Klaustrinu í síðasta mánuði þar sem farið var ósæmilegum orðum um ýmsa einstaklinga. Svona tal eigi sér alltof víða stað og ljósið í myrkrinu sé að þetta mál verði vonandi til þess að koma því kyrfilega fyrir að slíkt eigi sér hvergi stað. Aðspurður segir hann að málið sé þannig í raun birtingarmynd stærra vandamáls og horfa þurfi á málið í stærra samhengi sé vilji til þess að taka á því vandamáli.

Almenningur eðlilega sár og reiður

„Þetta er til því miður og með því er ég ekki að gera lítið úr þessu tiltekna máli. En þetta er einfaldlega stærra vandamál en þetta einstaka mál. Við í Miðflokknum ætlum að taka á þessum málum innan okkar flokks, eins og Sigmundur [Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins] sagði strax í byrjun, og við munum gera það,“ segir Þorsteinn.

„Ég er ekkert hissa á því að almenningur sé sár og reiður og hryggur yfir þessum fréttum enda er það bara eðlilegt. Við þingmenn og aðrir kjörnir fulltrúar erum í þeirri stöðu hvort sem við erum í vinnunni eða annars staðar, hvort sem við erum innan um annað fólk eða ekki. Ég vona bara, og það er kannski ljósið í myrkrinu, að þetta mál verði til þess að koma því kyrfilega fyrir að svona lagað gerist ekki. Það er mín von.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert