Efast um lögmæti „tvírannsóknar“

Ragnar Aðalsteinsson í héraðsdómi fyrr í vikunni ásamt lögmanninum Auði …
Ragnar Aðalsteinsson í héraðsdómi fyrr í vikunni ásamt lögmanninum Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur og Báru Halldórsdóttur. mbl.is/Árni Sæberg

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Báru Halldórsdóttur, setur spurningamerki við það hvort þingmenn Miðflokksins sem voru hljóðritaðir á barnum Klaustri geta höfðað einkamál gegn henni á sama tíma og Persónuvernd myndi rannsaka málið. Þannig sæti Bára rannsókn og refsikröfum á tveimur mismunandi stöðum á sama tíma.

„Aðalreglan er sú að slík tvírannsókn og tvírefsiákvörðun sé andstæð ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu,“ segir Ragnar, sem kveðst ekki gera sér grein fyrir því hvaða þætti málsins Persónuvernd myndi rannsaka. Stjórn Persónuverndar mun funda á morgun um Klaustursmálið þar sem hugsanlega verður tekin ákvörðun um hvort málið verður tekið til rannsóknar.

Hann segir að Persónuvernd hafi heimildir til að leggja á stjórnvaldssektir en veit ekki hversu há upphæðin gæti orðið í tilfelli Báru.

Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður.
Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður. mbl.is/Valli

Strangar kröfur til að heimila gagnaöflun

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í morgun kröfu þingmannanna fjögurra um gagnaöflun og vitnaleiðslur fyrir héraðsdómi. Spurður segir Ragnar að úrskurðurinn sé „í samræmi við þau dómafordæmi sem við þó höfum frá Hæstarétti þar sem eru gerðar mjög strangar kröfur til þess að heimila slíka gagnaöflun áður en mál er höfðað“ og á þar við myndefni úr öryggismyndavélum. Miðað við dómafordæmin hafi niðurstaðan ekki komið á óvart.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins.

Geta beðið um opinbera rannsókn

Auk þess að höfða einkamál geta fjórmenningarnir óskað eftir því við ákæruvaldið að það beiti sér fyrir opinberri rannsókn og eftir atvikum útgáfu ákæru þegar þar að kemur. Hugsanlega gæti því orðið dómsmál úr því, að sögn Ragnars.

Spurður hvernig hann metur stöðu Báru segir hann að hún sé ekki í mikilli hættu fyrir áföllum í umræddum málarekstri. Hægt sé að færa sterk rök fyrir því um að hún njóti verndar laganna gagnvart því sem hún gerði, bæði hvað upptökuna varðar og sendingu hennar til fjölmiðla.  

mbl.is

Bloggað um fréttina