„Þungt um og yfir jólahátíðina“

Fjórir liðsmenn og sjúkrabíll voru sendir úr höfuðborginni suður á …
Fjórir liðsmenn og sjúkrabíll voru sendir úr höfuðborginni suður á land. mbl.is/Árni Sæberg

Starf sjúkra- og slökkviliðsmanna hefur verið frekar þungt fyrir og um jólahátíðina, og varð ennþá þyngra þegar fregnir bárust af banaslysi á Suðurlandi fyrr í dag, segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Fjórir voru sendir úr liði slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins suður á land í morgun og þá var einn sjúkrabíll sendur úr borginni á Selfoss til að manna stöður þar og segir Jón Viðar að full þörf hafi verið á.

Voru í krefjandi verkefni þegar kallið kom

„Sjúkraflutningar hafa verið svolítið erfiðir yfir hátíðina og við vorum t.a.m. í mjög krefjandi verkefni í dag þegar beiðnin kom frá Suðurlandi,“ segir Jón og bætir við: „Þá höfum við það úrræði og erum það vel mannaðir að við hringjum út samkvæmt ákveðnu kerfi. Það er enginn á bakvakt en við hringum út eina vakt og þeir koma sem koma geta.“

Jón Viðar segir að menn hafi verið ótrúlega duglegir að hverfa frá því sem þeir eru að gera á sinni frívakt og koma þegar kallið kemur. „Fyrir það ber að þakka, sérstaklega yfir hátíðirnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert