Annar mannanna hringdi eftir aðstoð

Frá aðgerðum við Landspítalann í Fossvogi í gær þegar þyrlur …
Frá aðgerðum við Landspítalann í Fossvogi í gær þegar þyrlur Landhelgisgæslunnar fluttu slasaða á bráðamóttökuna. mbl.is/Árni Sæberg

Farþegarnir fjórir sem komust lífs af eftir slysið á brúnni við Núpsvötn í gær, tveir karlmenn og tvö börn á aldrinum 7 til 9 ára, voru öll með meðvitund þegar viðbragðaðilar komu á vettvang. Annar mannanna náði að hringja og tilkynna um slysið. Þetta staðfestir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Selfossi, í samtali við mbl.is. RÚV greindi fyrst frá.

Þá herma heimildir mbl.is að annar mannanna hafi verið með meðvitund allan tímann. 

Eins og hefur komið fram áður þá voru sjö einstaklingar í Toyota Landcruiser-jeppanum sem fór í gegnum vegrið á brúnni Súlu yfir Núpsvötn í gær. Þeir voru allir breskir ríkisborgarar, fæddir á Indlandi. Um er að ræða tvo bræður, eiginkonur þeirra og börn. Báðar konurnar létust í slysinu sem og 11 mánaða gamalt barn.

Taka skýrslu af aðilum næst

„Allir fjórir voru með meðvitund, sem komust lífs af,“ sagði Sveinn Kristján í samtali við mbl.is. Hann gat ekki veitt nákvæmar upplýsingar um líðan þeirra sem eru á sjúkrahúsi og sagði um krítíska áverka að ræða en líðan væri stöðug eftir atvikum.

„Næstu skref hjá okkur er að taka skýrslur af þeim sem lifðu af, klára bíltæknirannsóknina og vinna úr vettvangsgögnum,“ segir Sveinn. Hann telur ólíklegt að mögulegt verði að taka skýrslu af fólkinu í dag.

Orsök slyssins er ennþá ókunn og ekki vitað hvort einstaklingarnir í bílnum hafi verið með bílbelti.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa kom á vettvang í fyrsta sinn um hádegisbil í dag og hóf rannsókn sína. Rannsakendur munu skoða aðstæður á slysstað og safna gögnum eftir atvikum, segir Sævar Helgi Lárusson, hjá rannsóknarnefndinni í samtali við mbl.is.

Fjölskylduvinir komnir til landsins, fjölskylda kemur á morgun

Fjölskyldur þeirra sem lentu í slysinu eru væntanlegir til landsins á morgun en nánir fjölskylduvinir eru nú þegar komnir til landsins. Þriðji bróðirinn mun vera væntanlegur frá Indlandi og búið er að ganga frá vegabréfsáritun fyrir hann. Þetta staðfestir T. Armstrong Changsang, sendiherra Indlands á Íslands, í samtali við mbl.is.

Hann segir einnig að indverska sendiráðið muni áfram bjóða fjölskyldum fólksins á Indlandi aðstoð og upplýsingar. Breska sendiráðið hefur tekið yfir aðra þætti málsins þar sem einstaklingarnir sem slösuðust eða létu lífið voru breskir ríkisborgarar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert