„Ég hafði aldrei hugmynd um það“

Hákon Örn Bergmann ásamt verjanda sínum í Héraðsdómi Reykjavíkur í ...
Hákon Örn Bergmann ásamt verjanda sínum í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Eggert

„Ég hafði aldrei hugmynd um það,“ sagði Hákon Örn Bergmann fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun við aðalmeðferð svokallaðs Skáksambandsmáls spurður hvað hann hafi talið að væri í sendingu sem kom frá Spáni og merkt var Skáksambandi Íslands. Málið snýst um innflutning á rúmlega fimm kílóum af amfetamíni til landsins og er Hákon ákærður fyrir að hafa verið einn þeirra sem stóðu að innflutningnum en hann neitar sök í málinu.

Hákon er ákærður í málinu ásamt þeim Sigurði Kristinssyni og Jóhanni Axeli Viðarssyni. Hákon og Sigurður neita sök í málinu en Jóhann hefur játað sök að hluta en segist líkt og Hákon ekki hafa vitað hvað hafi verið í sendingunni. Fram kom fyrir héraðsdómi að Sigurður teldi efnislýsinguna rétta í málinu en hann hafnaði því hins vegar sem ákæran byggði á, það er því magni fíkniefna sem honum væri gert að sök að hafa ætlað að flytja inn til landsins.

Hákon sagðist hafa þekkt Sigurð lengi og þeir gert hvorir öðrum greiða. Sigurður hafi lent í lausafjárvanda sumarið 2017 og Hákon þá lánað honum fjármuni. Hákon hafnaði því aðspurður hvort hann hafi fjármagnað fíkniefnakaupin. Hann hafi aðeins ætlað að aðstoða Sigurð við að standa við skuldbindingar eins og afborganir af íbúðarláni og heimilisbókhaldið. Sagði hann bankayfirlit Sigurðar staðfesti þetta.

Sigurður sagði björgunarhring á leiðinni

Hákon sagðist hafa verið farinn að ýta á eftir því að fá féð endurgreitt enda verið kominn í fjárhagsvanda. Sigurður hafi sagt fyrir jólin 2017 að björgunarhringur væri á leiðinni og beðið hann að kaupa símanúmer og hafa í síma yfir jólin vegna sendingar til landsins. Eftir jólin hafi tvær grímur verið farnar að falla á hann vegna málsins og hann því viljað fjarlægja sig frá því. Fyrir vikið hafi hann ákveðið að fá Jóhann til þess að nálgast sendinguna í sinn stað.

Lagði hann áherslu á að hann hefði verið samvinnuþýður frá upphafi. Spurður af Guðjóni Marteinssyni dómara hvað hann hafi talið að Sigurður ætti við með björgunarhringi sagðist Hákon hafa talið að hugsanlega væri um að ræða peninga. Hann hefði ekki haft hugmynd um hvað væri í pakkanum. Hákon sagðist aðspurður af Önnu Barböru Andradóttur aðstoðarsaksóknara ekki hafa haft ástæðu til annars en að treysta Sigurði. Þeir hefðu þekkst lengi.

Hákon kannaðist aðspurður við skjáskot af farmbréfum tengdum sendingunni sem fundist í síma hans og fartölvu þar sem meðal annars hafi komið fram að sendingin væri tilbúin að afhendingar þegar búið væri að greiða af henni. Sagðist hann hafa fengið þau hjá Sigurði. Hann hafi komið þessum upplýsingum til Jóhanns. Hákon sagði aðspurður að Sigurður hafi ekki talið rétt að Hákon tæki við sendingunni sjálfur. Í framhaldinu hafi Hákon beðið Jóhann um það.

Henti símanum út um bílgluggann

Spurður hvers vegna Hákon hafi talað við Jóhann sagðist hann hafa gert það vegna þess að hann væri ólíklegur til þess að spyrja spurninga og vegna þess að hann hefði skuldað sér pening, 300 þúsund krónur. Hákon sagðist hafa lofað Jóhanni að sú skuld yrði látin falla niður ef hann tæki verkefnið að sér. Aðspurður sagði Hákon skuldina vera gamla og til komna vegna þess að Jóhann hefði notað fíkniefni sem Hákon hefði átt. Hann neitaði að hafa selt honum fíkniefnin.

Saksóknari spurði Hákon hvers vegna hann hefði fylgt Jóhanni eftir þegar hann hafi sótt sendinguna og sagði hann ástæðuna þá að þó hann hafi viljað fjarlægja sig frá málinu hafi hann ekki heldur viljað svíkja vin sinn, Sigurð. Hann hafi viljað kanna hvort allt gengi rétt fyrir sig. Spurður hvað hann hafi haldið að væri í pakkanum sagðist Hákon hafa spurt Sigurð einu sinni að því að fengið þau svör að í pakkanum væru fæðubótaefni. Jóhann hefði ekkert vitað um það.

Hákon sagðist aðspurður hafa brugðið þegar Jóhann var handtekinn. Hann hafi fyrst farið heim og síðan í vinnu. Spurður hvað hann hafi gert við símann sem hann hafi verið með vegna málsins sagðist hann hafa kastað honum út um bílgluggann. Það hafi einfaldlega verið fyrstu viðbrögð hans. Aðspurður sagðist hann ekki hafa vitað hver ætti að taka við pakkanum. Hann hafi átt að láta Sigurð vita þegar sendingin væri komin á áfangastað. Hann hafi ekkert átt að fá fyrir þetta.

Lögreglumaður sem kom fyrir héraðsdóm sem vitni sagði grun hafa fallið á Hákon þar sem hann hafi sést fylgjast með Jóhanni úr bifreið sinni. Hann hafi verið handtekinn í kjölfarið og gögn fundist í framhaldinu í símanum hans.

mbl.is