Aðalmeðferð í Shooters-máli í dag

Frá þingfestingu málsins í desember.
Frá þingfestingu málsins í desember. mbl.is/Eggert

Aðalmeðferð í máli tveggja manna sem ákærðir eru fyrir al­var­lega lík­ams­árás gegn dyraverði á skemmti­staðnum Shooters 26. ág­úst hefst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. 

Ákæran er í tveimur liðum en í fyrri lið hennar eru mennirnir ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa í félagi við tvo óþekkta karlmenn veist með ofbeldi að dyraverði og veitt honum ítrekuð hnefahögg í andlit, höfuð og líkama. Auk þess fyrir að hafa sparkað ítrekað í líkama hans og annar mannanna er ákærður fyrir að hafa veitt fórnarlambinu þrjú hnéspörk í andlit.

Í seinni lið ákærunnar er annar mannanna ákærður fyrir stórfellda líkamsárás, með því að hafa veist með ofbeldi að öðrum dyraverði og veit honum hnefahögg í andlit, elt dyravörðinn sem reyndi að komast undan og hrint þannig að dyravörðurinn féll fram fyrir sig niður tvö þrep.

Árásarmaðurinn er enn fremur sakaður um að hafa veitt dyraverðinum nokkur hnefahögg og spörk í andlit og höfuð þar sem hann lá. Fórnarlambið er lamað fyrir neðan háls eftir árásina.

Við þingfestingu málsins í desember játuðu mennirnir sök í fyrri lið ákæru. Með því að játa fyrri ákæru­lið er geng­ist við því að hafa veist að öðrum brotaþol­an­um, þeim sem ekki hlaut lífs­hættu­lega áverka. 

Við þingfestingu voru bótakröfur tengdar fyrri ákærulið samþykktar af hvor­um tveggja hinna ákærðu, þó með þeim hætti að upp­hæðin sjálf verði lögð aft­ur í mat dóms­ins en ekki samþykkt eins og hún er, en kraf­an er upp á 2,5 millj­ón­ir króna.

Bóta­kröf­urn­ar fyr­ir seinni liðinn eru mun hærri en þar lamaðist brotaþoli, eins og seg­ir. Hinn ákærði hafn­aði við þingfestingu liðnum sem heild, að und­an­skild­um hnefa­högg­um sem hann gengst við, og hafn­ar þar af leiðandi bóta­kröf­un­um, sem eru upp á 123 millj­ón­ir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert