Ákærður fyrir brot gegn 13 ára stúlku

Héraðssaksóknari gaf út ákæru í málinu sem var þingfest í …
Héraðssaksóknari gaf út ákæru í málinu sem var þingfest í síðustu viku. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Karlmaður hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir kynferðisbrot gegn 13 ára stúlku, en ætluð brot áttu sér stað í júlí í fyrra. Málið var þingfest í Héraðsdómi Vesturlands í síðustu viku.

Maðurinn er sagður hafa gefið stúlkunni áfengi og fíkniefni og haft við hana samræði.

Á maðurinn að hafa nýtt sér yfirburði sína vegna aldurs- og þroskamunar og þannig beitt hana ofbeldi. Þá er hann einnig ákærður fyrir að hafa tekið af stúlkunni tvær kynferðislegar hreyfimyndir á síma sinn.

Er maðurinn ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr., 1. mgr. 202. og 1. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga. Brot við 194. greininni, sem tekur til kynferðismaka án samþykkis, getur varðað fangelsi frá 1 ári og upp í 16 ár. Sama á við um brot gegn 202. greininni, en hún tekur til kynferðisbrota gegn börnum.

Að lokum nær 210. greinin til þess ef einhver framleiðir eða aflar efnis sem sýnir börn á kynferðislegan hátt. Varða brot við þeirri greint allt að 2 ára fangelsi.

Faðir stúlkunnar fer fyrir hönd hennar fram á að manninum verði gert að greiða henni 3,5 milljónir í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert