Útiloka enga kosti

Ólafur Ísleifsson býður Gunnar Braga Sveinsson, þingmann Miðflokksins, velkominn aftur …
Ólafur Ísleifsson býður Gunnar Braga Sveinsson, þingmann Miðflokksins, velkominn aftur á Alþingi í síðustu viku. hari

Þingmaðurinn Ólafur Ísleifsson segir að hann og þingmaðurinn Karl Gauti Hjaltason útiloki enga kosti varðandi næstu skref þeirra á Alþingi.

„Við vorum í nýrri stöðu. Við vorum reknir úr stjórnmálaflokki sem við vorum í og vitum eiginlega ekki alveg fyrir hvað, en það er önnur saga,“ segir Ólafur, sem ásamt Karli Gauta sat með þingmönnum Miðflokksins á barnum Klaustri á síðasta ári.

Þeir voru í framhaldinu reknir úr Flokki fólksins.

Ólafur bendir á að þeir fái ekki að stofna nýjan þingflokk þrátt fyrir að nú þegar sé starfandi tveggja manna þingflokkur með þremur aðstoðarmönnum. Á hann þar við Flokk fólksins. Einnig nefnir hann að staða hans og Karls Gauta sé óljós eftir að þeir fengu ekki að taka þátt í umræðum á Alþingi í síðustu viku.

„Við bendum á brotalamir í þingsköpunum og erum enn þá að reyna að átta okkur á þessu. Við vorum sendir á þing af okkar kjósendum til þess að sinna ákveðnum málefnum og við erum að velta því fyrir okkur með hvaða hætti við erum í bestri aðstöðu til þess að rækja þessi erindi,“ segir hann. „Við höfum ekki útilokað neina kosti.“

Fram kom í Fréttablaðinu í morgun að búast megi við að þeir færi sig yfir í Miðflokkinn „á hverri stundu“.

Fjallað var um nefndarskipan Alþingis í gær í ljósi þess að Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, tók upp þráðinn sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar eftir að hafa verið í leyfi frá störfum vegna Klaustursmálsins. Tillögu um að Bergþór viki úr sæti formanns var vísað frá. Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði meirihluta nefndarinnar telja að leysa þyrfti málið á vettvangi þingflokksformanna minnihlutaflokkanna.

„Ef það kæmi til þess að það yrði farið í að endurskoða nefndarskipan á Alþingi eins og hefur aðeins heyrst, þá gætum við ekki staðið hjá í því. Við yrðum að meta með hvaða hætti okkar hagur yrði best tryggður í því,“ segir Ólafur og bætir við að aðgangur að nefndum sé mjög mikilvægur fyrir þingmenn.

Ólafur situr í atvinnuveganefnd Alþingis og Karl Gauti í umhverfis- og samgöngunefnd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert