Kosningastjórinn hrinti honum af henni

Konan lýsir því að henni hafi þótt mikill heiður að …
Konan lýsir því að henni hafi þótt mikill heiður að sjálfur formaður flokksins vildi fara yfir áherslur flokksins með henni. mbl.is/RAX

„Þegar leið á kvöldið vildi Jón Baldvin fá að tala við mig í einrúmi. Hann bað mig að koma upp á herbergi og vildi sýna mér hvað flokkurinn væri að gera.“

Svona lýsir flokkssystir Jóns Baldvins Hannibalssonar, þáverandi formanns Alþýðuflokksins, flokksfundi sem endaði á hóteli og drykkir voru hafðir um hönd.

Mbl.is hefur rætt við konuna um frásögn hennar, sem birt var á bloggsíðunni metoo-jonbaldvin.blog.is, og fengið hana staðfesta. Umrætt atvik átti sér stað árið 1996.

Konan lýsir því að henni hafi þótt mikill heiður að sjálfur formaður flokksins vildi fara yfir áherslur flokksins með henni, enda hafi hún verið alin upp sem krati og alltaf verið mjög virk í starfi.

„Eftir smá stund segir hann við mig að hann sé svo graður að hann viti ekki hvað hann eigi að gera. Hann þurfi að fá útrás. Ég vissi ekkert hvernig ég átti að vera.“

Hann hafi svo byrjað að kyssa hana, strjúka og þukla. Þegar hann hafi reynt að fara lengra hafi kosningastjórinn, sem hún þekki vel, komið og hrint honum af henni og hún komið sér út og heim. „Það eina sem ég man enn er augnaráðið, lyktin og viðbjóðurinn sem kom frá honum.“

mbl.is