Keyptu níu „svindl-bíla“ árið 2017

Suzuki Jimny-bílar hafa verið mjög áberandi í bílaleigubílaflota íslenskra bílaleiga …
Suzuki Jimny-bílar hafa verið mjög áberandi í bílaleigubílaflota íslenskra bílaleiga á undanförnum árum. Þessi mynd er tekin við Jökulsárlón. Ljósmynd/Wikimedia Commons: Moyan Brenn

Rekstraraðilar bílaleigu sem keypti notaða bílaleigubíla af gerðinni Suzuki Jimny af bílaleigunni Procar árið 2017 voru undrandi og hálfslegnir er blaðamaður hafði samband og sagði þeim að átt hefði verið við kílómetramælana í a.m.k. níu bílum sem nú eru í eigu fyrirtækisins.

Þær upplýsingar liggja fyrir þegar gögn úr bókunarkerfi bílaleigunnar Procar eru borin saman við upplýsingar úr ökutækjaskrá Samgöngustofu.

Kílómetramælar bílanna voru „skrúfaðir niður“ eða „spólaðir til baka“ árið 2016, tveir um um það bil 105 þúsund kílómetra, þrír um um það bil 90.000 kílómetra og fjórir á bilinu 63-77 þúsund kílómetra.

„Þetta er svolítið sjokkerandi,“ sagði annar tveggja manna sem tengjast rekstri bílaleigunnar og mbl.is ræddi við. Samkvæmt svörum þeirra hafði bílaleigan ekki vitneskju um að átt hefði verið við kílómetrastöðuna þegar bílarnir voru keyptir.

„Við eigum bara eftir að skoða þetta nánar og skoða bílana sjálfa. Þetta er bara einhver hlutur sem maður hefur aldrei spáð í,“ sagði maðurinn, um það hver viðbrögð fyrirtækisins yrðu.

„Ég veit ekki alveg hvar maður stendur,“ sagði hinn, spurður um það hvort og þá hvernig fyrirtækið myndi leita réttar síns, en Procar hefur bent bíleigendum sem hafa fyrirspurnir varðandi svindl fyrirtækisins á að hafa samband við Draupni lögmannsstofu.

Fátt um svör þrátt fyrir að yfirlýsing hafi verið rengd

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, stangast yfirlýsing sem stjórn Procar ehf. sendi frá sér eftir umfjöllun Kveiks um háttsemi bílaleigunnar í síðustu viku, á við gögn úr bókunarkerfi bílaleigunnar, sem fyrrverandi starfsmaður fyrirtækisins hefur látið fjölmiðlum í té.

„Þetta er svolítið sjokkerandi,“ sagði annar tveggja manna sem tengjast …
„Þetta er svolítið sjokkerandi,“ sagði annar tveggja manna sem tengjast rekstri bílaleigunnar og mbl.is ræddi við. mbl.is/Hari

Gögnin sýna, séu þau borin saman við upplýsingar úr ökutækjaskrá Samgöngustofu, að bílaleigan seldi bíla sem átt hafði verið við á árunum 2017 og 2018, en ekki bara á árunum 2013-2016, eins og haldið var fram í yfirlýsingu Procar.

Draupnir lögmannsstofa hefur ekki svarað fyrirspurn blaðamanns, sem send var í morgun og ítrekuð síðdegis, um það hvort þeim sem keyptu bíla af fyrirtækinu á árunum 2017 og 2018 verði boðnar bætur, rétt eins og Procar sagðist í yfirlýsingu ætla að greiða þeim sem sannarlega hefðu verið hlunnfarnir í bílaviðskiptum við fyrirtækið á árunum 2013-2016.

Þá hafa engir fjölmiðlar enn náð tali af Gunnari Birni Gunnarssyni, forstjóra Procar, vegna þessa máls.

mbl.is