Viðbrögð verkalýðsfélaganna koma á óvart

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, kynnti tillögur ríkisstjórnarinnar í dag. …
Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, kynnti tillögur ríkisstjórnarinnar í dag. Hann segir koma á óvart ef væntingar voru til annars en þess sem stjórnvöld hafa boðað í rúmt ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er ekki þannig að einstök stéttarfélög semji fyrir sitt leyti um skattkerfisbreytingar,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is um viðbrögð stéttarfélaganna við skattkerfistillögum ríkisstjórnarinnar vegna yfirstandandi kjaraviðræðna.

Ráðherrann kynnti tillögur ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundi í dag og miða þær við að komið verði á nýju lægsta skattþrepi sem verði 4 prósentustigum lægra en það sem nú er.

„Það hefur ekki verið rætt um slíkar breytingar við aðra aðila við samningaborðið eins og opinberu félögin eða einstaka stéttarfélög eins og Efling virðist halda að eigi að gilda um sig,“ sagði Bjarni.

Ríkisstjórnin sé með þessu að leggja það til sem boðað hefur verið í rúmt ár — að nýta svigrúm upp á 14 til 16 milljarða króna í fjármálaáætlun til að bæta kjör lágtekjuhópa.

„Það kemur á óvart ef væntingar í skattamálum stóðu til einhvers allt annars en við höfum sagt allan tímann,“ segir Bjarni. „Við höfum aldrei gefið í skyn að við værum að fara í stórfelldar skattkerfisbreytingar.“

Hann segir hugmyndir um að ráðstafa meira af afgangi ríkissjóðs í skattkerfisbreytingar ganga gegn þeirri fjármálaáætlun sem Alþingi hefur samþykkt. „Það er ekki hægt að umgangast það af einhverri léttúð og segjast ætla að taka bróðurpartinn af afgangi ríkisfjármála á næstu árum og nýta í okkar skattaáherslur.“

„Við erum ekki og höfum aldrei verið að gera ráð fyrir tug milljarða svigrúmi til skattalækkana eins og Efling virðist gera ráð fyrir. Við höfum heldur ekki gefið undir fótinn 55% skattþrep á háskólamenntaða,“ segir Bjarni.

Ágreiningur um útfærslur

Ráðherrann segist ekki ætla að leggja mat á það hvort líkurnar á verkföllum hafi aukist í ljósi þeirrar óánægju sem verkalýðshreyfingin hefur lýst í sambandi við tillögur ríkisstjórnarinnar.

„Ég met stöðuna þannig að með aðgerðum stjórnvalda sem fela í sér lækkun á skattbyrði, aðgerðir í húsnæðismálum, ýmsum félagslegum úrræðum sem meðal annars horfa til lengingar á fæðingarorlofi og styrkingar á bótakerfinu eins og hækkun barnabóta sem tók gildi um áramótin þá eigi við samningaborðið milli atvinnurekenda og verkalýðshreyfinganna að vera hægt að leggja mjög traustan grunn fyrir áframhaldandi vöxt ráðstöfunartekna,“ útskýrir hann.

Bjarni segir að ekki megi láta ágreining um útfærslur leiða til þess að það brjótist út átök sem á endanum verði til tjóns eða þurrki út þann ávinning sem gæti áunnist úr stöðunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina