Vilja betri svör frá SA

Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, á fundinum í morgun.
Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, á fundinum í morgun. mbl.is/Eggert

Starfsgreinasambandið vill fá betri svör frá Samtökum atvinnulífsins, á fundi sem verður haldinn síðar í dag, en á síðasta fundi þeirra. Þetta sagði Björn Snæbjörnsson, formaður sambandsins, að loknum fundi viðræðunefndar í morgun.

„Þetta verður ákveðinn yfirlitsfundur til að fara yfir stöðuna og vita hvað við getum togað út úr þeim,“ sagði hann um fundinn með SA, sem hefst klukkan 16 í dag. 

„Núna er þetta orðið ljóst út frá ríkisspilinu, þannig að við viljum fara að fá ákveðin svör frá Samtökum atvinnulífsins og betri en það sem þau kynntu um daginn.“

Frá fundinum í morgun.
Frá fundinum í morgun. mbl.is/Eggert

Sækja meira til atvinnurekenda

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í morgun að frekari tillögur af hálfu ríkisstjórnarinnar séu ekki væntanlegar. Svigrúmið sé ekki meira miðað við fjármálaáætlun. „Þau segjast vera komin með þennan pakka. Þá vitum við að það er ekkert meira í honum. Auðvitað var hann vonbrigði. Það er reyndar ýmislegt í honum sem er jákvætt en það sem snýr að skattamálunum er mjög neikvætt og miklu minna heldur en við áttum von á. Nú þarf bara að sækja meira til atvinnurekenda,“ sagði Björn. 

Spurður hverjar séu eðlilegar kröfur SGS í kjaradeilunni sagði Björn að kröfugerð hafi verið sett upp eins og félögin vildu og að áfram verði haldið við hana.

mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert