Hryðjuverkahrós tilkynnt til lögreglu

Flaggað í hálfa stöng á þingshúsinu í Wellington í Nýja-Sjálandi …
Flaggað í hálfa stöng á þingshúsinu í Wellington í Nýja-Sjálandi í dag. Hatursfull orðræða hefur skotið upp kollinum í athugasemdakerfum hér á landi í kjölfar hryðjuverkaárásinnar í Christchurch. AFP

„Í kjölfar hinna skelfilegu hryðjuverka í Nýja Sjálandi þar sem meðal annars smábörn voru skotin í bakið ryðst á ritvöllinn fólk á Íslandi með svartar sálir sem taka þessum drápum á saklausu fólki fagnandi. Greiningardeild lögreglunnar þarf að setja þessa einstaklinga á skrá sem hættulega umhverfi sínu,“ skrifar lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson á Facebook-síðu sína í dag.

Fleiri netverjar tjá sig á svipuðum nótum um þau haturfullu ummæli sem viðhöfð voru í athugasemdakerfum íslenskra fjölmiðla í morgun. Til dæmis var lokað á athugasemdir undir fréttum af málinu á Vísi.is, eftir að tveir menn gengu svo langt að segja „vel gert“ um hryðjuverkin í moskunum tveimur og staðhæfði annar þeirra að um sjálfsvörn hryðjuverkamannsins hefði verið að ræða.

Tilkynnti ummælin til lögreglu

Sema Erla Serdar greindi frá því á Twitter-síðu sinni áðan að hún hefði tilkynnt hatursorðræðuna sem birtist undir frétt Vísis til lögreglu. Hún segir við að hún telji ummælin geta varðað við brot á 233 gr. a. í almennum hegningarlögum.

Þar segir: „Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“

„Það eru þarna tvö ummæli sem að mínu mati eiga erindi við lögregluna þar sem að þau ýta undir ofbeldi í garð minnihlutahóps í okkar samfélagi. Mér fannst eðlilegt að tilkynna þetta til lögreglunnar og á von á því að þau taki þetta til skoðunar,“ segir Sema Erla í samtali við mbl.is.

Sema Erla Serdar.
Sema Erla Serdar. Ljósmynd/Sigurjón Ragnar

Hún segir að henni þyki sorglegt að segja frá því að viðbrögð sem þessi, sem að ofan er lýst, hafi ekki komið henni neitt rosalega á óvart.

„Hatursorðræða er vaxandi vandamál á Íslandi sem og víðar og það hefur nú verið greint frá því núna til dæmis að mikið hatur á internetinu hafi verið undanfari á þessu hryðjuverki, í Nýja-Sjálandi. Haturorðræða er undanfari hatursglæpa. Þetta er afskaplega sorglegt, svona hatur og svona öfgar eiga ekkert erindi í okkar samfélagi. Það er svo mikilvægt að taka skýra afstöðu gegn því og láta það ekki óáreitt þegar við verðum vör við þetta. Þetta bara ýtir undir ofbeldi og mismunun gagnvart minnihlutahópum í okkar samfélagi,“ segir Sema Erla.

Samfélagsmiðlar standa í ströngu við að eyða efni

Eins og fram hefur komið deildi hryðjuverkamaðurinn ódæði sínu í beinni útsendingu á Facebook.

Myndbandið hefur síðan farið í dreifingu á ýmsum samfélagsmiðlum og greinir BBC meðal annars frá því að því sé í sífellu hlaðið upp á myndbandavefinn YouTube, hraðar en starfsmenn miðilsins geta brugðist við og fjarlægt myndbandið.

Þá hefur AFP-fréttaveitan það eftir talsmanni Facebook að samfélagsmiðilinn hafi brugðist skjótt við og fjarlægt bæði myndskeiðið og bæði Facebook- og Instagram-aðganga hryðjuverkamannsins.

„Við erum einnig að fjarlægja allt hrós og allan stuðnings í garð glæpsins og byssumannsins eða byssumannanna um leið og við verðum þess vör,“ sagði talsmaður Facebook.

mbl.is