Sjálfsagt að rétta hjálparhönd

Skólastarfið fer fram í stúkunni vinstra megin á myndinni.
Skólastarfið fer fram í stúkunni vinstra megin á myndinni. mbl.is/Árni Sæberg

Knattspyrnusamband Íslands tekur því fagnandi að geta orðið að liði og aðstoðað Fossvogsskóla vegna mygluvanda þar. Um 230 krakkar munu næstu mánuði sækja skóla í höfuðstöðvum KSÍ.

Auk þess eru 100 börn í Þrótt­ara­heim­il­inu í Laug­ar­dal og íþrótta­kennsla verður í fim­leika­sal Ármanns á sama stað. Loks eru um 40 börn í fyrsta bekk í skóla­skúr­un­um við Foss­vogs­skóla.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að fyrsti dagurinn í gær hafi gengið ágætlega en krakkarnir eru á þriðju hæð í vesturstúkunni við Laugardalsvöll. Guðni telur að aðalmálið snúi að því að flytja krakkana í og úr Laugardalnum. „Það er svona það sem þarf að vanda til og skipuleggja af hálfu skólayfirvalda og borgarinnar.“

Hann segir að auðvitað sé um sérstakar aðstæður að ræða en KSÍ taki því fagnandi að geta orðið að liði við að hjálpa til að leysa úr stöðunni. „Reykjavíkurborg er meirihlutaeigandi vallarins svo það var sjálfsagt fyrir okkur sem rekstraraðila að rétta hjálparhönd, fá krakkana til okkar og reyna að halda vel utan um þetta á næstu mánuðum,“ segir Guðni.

Guðni Bergsson formaður KSÍ.
Guðni Bergsson formaður KSÍ. mbl.is/Hari

Spurður segir Guðni að auðvitað sé um ákveðið rask fyrir KSÍ að ræða og sambandið þurfi að hliðra til og taka tillit til skólastarfsins. „Við gerum það og reynum að láta þetta allt ganga upp með jákvæðni og góðum huga að leiðarljósi. Þetta er rétt byrjað en ég vona að þetta gangi sem best.

Guðni tekur undir með blaðamanni að það sé líklega mjög spennandi fyrir krakka sem hafa áhuga á knattspyrnu að vera í skólanum við Laugardalsvöll. „Það má segja að það sé ákveðinn stíll á þessu og að þetta sé ákveðið ævintýri. Þetta er óvenjuleg og skemmtileg breyting og þó að húsnæðið sé ekki hannað til skólastarfs eru þetta ágætir salir og björt og góð húsakynni,“ segir Guðni sem vonast til þess að það fari vel um nemendur, kennara og starfslið.

Vonandi ná yfirvöld að lagfæra húsnæði Fossvogsskóla sem fyrst. Við reynum að halda eins vel utan um þetta og við mögulega getum.

Krakkarnir geta horft yfir Laugardalsvöll og látið sig dreyma um …
Krakkarnir geta horft yfir Laugardalsvöll og látið sig dreyma um landsliðsferil. Ljósmynd/KSÍ
mbl.is