Segir reynt að afstýra áhrifum verkfalls

Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar reiknar með því að verkfallsvarslan á …
Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar reiknar með því að verkfallsvarslan á föstudag verði öflug. mbl.is/Hari

Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar segir að félagið hafi í gær sent bréf til allra hópbifreiðafyrirtækja þar sem fjölmargar tilkynningar hafi borist frá félagsmönnum um „ýmiskonar tilraunir“ sem verið sé að gera til þess að „afstýra áhrifum verkfallsins“ sem hefst á föstudag.

„Það er náttúrulega óheimilt samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og samkvæmt dómafordæmum eru mjög þröngar skorður á því hvað megi gera til að afstýra áhrifum verkfalls,“ segir Viðar, sem vill ekki tjá sig nánar um það hvaða ráðstöfunum til þess að afstýra verkfallsáhrifum hann hafi heyrt af.

„Við nóterum það hjá okkur hvaðan þessar ábendingar koma og tökum tillit til þess í verkfallsvörslunni,“ segir Viðar.

Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line, sagði við mbl.is í morgun að þeir bílstjórar sem starfa hjá fyrirtækinu og eru ekki í Eflingu, myndu mæta til starfa á föstudag, þvert á það sem Efling segir heimilt.

„Svar okkar við því er að ef þú ert að vinna þau störf sem okkar kjarasamningur tekur til og okkar kjarasamningur er eini kjarasamningurinn sem er í gildi á þessu svæði um þau störf, þá náttúrulega á viðkomandi starfsmaður að vera í Eflingu.

Við lítum svo á að sá starfsmaður sé bundinn af löglega teknum ákvörðunum Eflingar og beri að vera félagsmaður í Eflingu og þá eftir atvikum að leiðrétta sína félagsaðild. Ef þú ert að starfa sem bílstjóri á félagssvæði Eflingar þá „meikar það engan sens“ að þú sért að borga í eitthvert annað stéttarfélag sem er ekki með gildan samning um þau störf,“ segir Viðar.

Reiknar með öflugri verkfallsvörslu

Hann segir að verkfallsvarsla verði samstillt á milli VR og Eflingar á föstudaginn og reiknar með því að hún verði öflug. Kynningarfundur verður haldinn vegna verkfallsvörslunnar annað kvöld og þeim bílstjórum sem fara í verkfall á föstudag er velkomið að taka þátt. Viðar segir verkfallsvörsluna verða með svipuðum hætti og 8. mars, en þó sé það svo að það sé eilítið öðruvísi að fylgjast með þegar atvinnutækin eru hreyfanleg.

„Við bindum líka vonir við það að okkar systurfélög og félagsmenn þeirra muni styðja það og sýna samstöðu um framkvæmd verkfallsins og við líka bara köllum eftir því. Mikið af þessu veltur á samstöðunni og við erum bjartsýn á að hún sé til staðar,“ segir Viðar, sem segir verkfallsverðina einnig starfa í trausti þess að atvinnurekendur vilji fara að lögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert