Freista þess að keyra flugfarþega

Björn segir að hjá Kynnisferðum nái verkfallið til 170 hópbifreiðastjóra …
Björn segir að hjá Kynnisferðum nái verkfallið til 170 hópbifreiðastjóra en að 30 séu í öðrum stéttarfélögum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum búin að undirbúa okkur og gerum ráð fyrir að vinna eftir plani,“ segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða. Hann segir vonbrigði að ekki hafi tekist að aflýsa verkföllunum. „Maður var að vonast til þess að samningsaðilar næðu eitthvað meira saman og það yrði til þess að verkföllum yrði alla vega frestað.“

Hjá Kynnisferðum verður höfuðáhersla lögð á að halda leiðinni á milli Keflavíkur og Reykjavíkur opinni. 

„Aðrar ferðir falla mikið til niður. Reyndar er veðurspáin slæm fyrir morgundaginn svo mér sýnist að það þyrfti jafnvel að aflýsa einhverju vegna veðurs, en megninu af dagsferðum vorum við búin að aflýsa vegna þess að við höfum einfaldlega ekki mannskap,“ segir Björn.

Vilja vinna og ætla sér að vinna 

Aðspurður hvort hann sjái fram á að hægt verði að halda uppi akstri til og frá Keflavíkurflugvelli segir Björn það velta á því hvernig verkfallsvörslu verði háttað. „Það eru mismunandi túlkanir á því hverjir mega og hverjir mega ekki keyra. Ef það verður farið eftir þeirri túlkun sem við höfum, þá eigum við að geta haldið leiðinni opinni, en ef það verður farið eftir þessari ströngu túlkun Eflingar þá verður það mjög erfitt.“

Björn segir að hjá Kynnisferðum nái verkfallið til 170 hópbifreiðastjóra en að 30 séu í öðrum stéttarfélögum. „Þeir vilja vinna og hafa í samráði við sín stéttarfélög fengið upplýsingar um það að þeir megi vinna og þeir ætla sér að vinna.“

„Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir farþega ef þeir komast ekki til og frá flugvellinum. Þetta er orðið það mikið magn sem fer um flugvöllinn á hverjum degi að leigubílarnir munu ekki ná að anna þessu ef við verðum stoppaðir. Þetta mun valda mikilli röskun og er ekki jákvætt fyrir ímynd Íslands,“ segir Björn að lokum, en hann ætlar sjálfur að sinna akstri í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert