Réttlætir ekki skattfé í áhætturekstur

Bjarni Benediktsson ræðir við mbl.is í Stjórnarráðinu.
Bjarni Benediktsson ræðir við mbl.is í Stjórnarráðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hef haft miklar áhyggjur af þessu lengi, svo ég get ekki sagt að ég hafi auknar áhyggjur í sjálfu sér,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, við mbl.is um óvissustöðuna í tengslum við WOW Air.

Bjarni var á fundi í Stjórnarráðinu í morgun, en hann segir stjórnvöld að sjálfsögðu fylgjast grannt með gangi mála.

„Við erum ekki að funda í morgunsárið vegna þess, en ég vænti þess að menn séu í samskiptum. Við höfum fylgst með þessari stöðu í langan tíma og við vonumst áfram eftir því að farsæl niðurstaða fáist fyrir ferðaþjónustuna í landinu. Það er öllum ljóst að miklir hagsmunir eru undir,“ segir Bjarni.

Aðspurður hvort stjórnvöld hafi endurskoðað afstöðu sína í málinu eftir að Icelandair Group sleit viðræðum við WOW Air í gær segir Bjarni svo ekki vera.

„Nei, í sjálfu sér ekki. Málið var þá í höndum aðilanna og má segja að það sé enn þannig. Þarna er um að ræða fyrirtæki í einkaeigu sem er að reyna að greiða úr sínum fjárhagsvanda og það hefur ekkert breyst.“

Erlendir greinendur hafa hjálpað

Í gær var greint frá því að fundað hafi verið í Stjórnarráðinu. Meðal þeirra sem sat fundinn var Michael Ridley, sem var ráðgjafi Íslands í banka­hrun­inu. Hann hef­ur starfað sjálf­stætt sem ráðgjafi eft­ir að hann hætti störf­um hjá fjár­fest­inga­bank­an­um J.P. Morg­an. Bjarni staðfestir að staða WOW Air hafi verið til umfjöllunar á fundinum.

„Já. Við höfum verið að greina stöðuna, meðal annars skoðað hagrænu áhrifin af því ef mikil röskun yrði í ferðaþjónustunni. Við höfum líka reynt að átta okkur á því hver staðan í þessum rekstri er og hvaða áform væru uppi að finna lausn. Það hefur hjálpað að hafa greinendur með okkur í því,“ segir Bjarni.

En komu þessir sérfræðingar sérstaklega til landsins vegna þessa máls?

„Reyndar stóð þannig á að við höfum verið að vinna með þessum tiltekna ráðgjafa í öðrum málum, en hann kom með okkur í þetta verkefni líka.“

Þannig að hann hefur ekki komið sérstaklega til landsins vegna þessa?

„Hann var á leiðinni til landsins upphaflega, á sama tíma og þetta kom upp,“ segir Bjarni.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra við Stjórnarráðið í morgun.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra við Stjórnarráðið í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki rætt um Air Berlín-leiðina

Meðal þess sem hefur verið rætt er að íslensk stjórnvöld fari sömu leið og þýska ríkið gerði þegar flugfélagið Air Berlin fór í þrot. Þýska ríkið lagði þá skiptastjóra félagsins til fé til að halda rekstrinum gangandi þar til nýr eigandi tók við félaginu. Í því tilfelli tók Lufthansa yfir hluta rekstursins. Hafa íslensk stjórnvöld rætt eitthvað slíkt í sambandi við WOW Air?

„Það er ekki komið að því að tala um neitt slíkt. En stjórnvöld eru vel upplýst og vita hvað getur gerst. Við höfum ekki rætt um að stíga inn í þennan vanda,“ sagði Bjarni. Hann hefur þrátt fyrir það miklar áhyggjur af stöðu mála.

„Maður hefur haft áhyggjur af því að það tæki langan tíma að greiða úr fjárhagsvandanum. Við erum að horfa á flugrekstur frá Íslandi, sem er í blóðugri alþjóðlegri samkeppni, meðal annars við mjög stór alþjóðleg fyrirtæki sem eru sömuleiðis í vanda. Svo markaðsaðstæður eru allar mjög erfiðar, að því er virðist, og samkeppnin gríðarleg,“ segir Bjarni.

 En munu stjórnvöld standa óhögguð og ekki blanda sér í málefni félagsins?

„Ég hef áður sagt að við sjáum ekki neina réttlætingu í því að setja skattfé inn í þennan áhætturekstur. Það er sú lína sem við höfum haft og það er enn í gildi,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina