WOW færi sömu leið og Air Berlin

Flugvél WOW air á Keflavíkurflugvelli.
Flugvél WOW air á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert

Eftir að Icelandair greindi frá því að viðræðum við WOW air hefði verið slitið fór af stað umræða um mögulega kosti síðarnefnda félagsins.

Viðmælandi mbl.is leiddi líkur að því að WOW air gæti farið sömu leið og lággjaldaflugfélagið Air Berlin.

Jón Karl Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair Group, benti líka á þennan möguleika í kvöldfréttum sjónvarpsstöðvanna í kvöld.

Samkvæmt nýjustu tíðindum af WOW air er þessi möguleiki ekki lengur í stöðunni. Umræða um hann vitnar hins vegar um ókyrrðina á markaði í dag.

AFP

Féllust á yfirtökuna

Umræddur sérfræðingur benti á að skiptastjóri hefði verið settur yfir Air Berlin. Þýska ríkið hefði síðan lagt skiptastjóranum fé til að halda rekstrinum gangandi þar til nýr eigandi tók við félaginu.

Flugfélagið Lufthansa tók yfir hluta reksturs Air Berlin í desember 2017. Fram kom í umfjöllun Financial Times að samkeppnisyfirvöld í ESB hefðu fallist á yfirtökuna.

Samkvæmt því stangast þessi leið ekki á við EES-reglur.

AFP

Ykjust aðeins um 1%

Var meðal annars haft eftir Margrethe Vestager, sem fer með samkeppnismál í framkvæmdastjórn ESB, að flugstæðum Lufthansa myndi aðeins fjölga um 1% við yfirtökuna. Tekið hefði verið tillit til samkeppnissjónarmiða við útfærslu á yfirtöku Lufthansa.

Rifjað var upp í grein Financial Times að vikunni áður hefði Lufthansa hætt við yfirtöku á austurríska lággjaldaflugfélaginu Niki en með því hefði það farið í gjaldþrot. Niki var dótturfélag Air Berlin.

Féð færi ekki til félagsins

Heimildarmaður blaðsins benti á að með þessari leið gæti ríkissjóður lagt sitt af mörkum til að halda rekstri WOW air gangandi, án þess að lána félaginu fjármuni. Þeir myndu enda renna til skiptastjóra.

Air Berlin var lággjaldaflugfélag. Það flaug meðal annars til Íslands. Rekstur þess hófst fyrir 40 árum en félagið leið undir lok í október 2017. Hafði Air Berlin þá brugðist við erfiðri stöðu með því að fækka áfangastöðum. Það dugði ekki til.

Eftir að Air Berlin sótti um gjaldþrotameðferð í ágúst 2017 veitti þýska ríkið félaginu brúarlán að fjárhæð 150 milljónir evra, sem svarar 20,3 milljörðum á núverandi gengi, til að tryggja áframhaldandi flug í þrjá mánuði og verja um leið um 7.200 störf í Þýskalandi, að því er sagði í frétt Reuters um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir