„Allar getgátur geta verið hættulegar“

Vignir Örn segir FFÍ ekki vera að ráðast á blaðamenn …
Vignir Örn segir FFÍ ekki vera að ráðast á blaðamenn eða Blaðamannafélagið.

Formaður Íslenska flugmannafélagsins segir félagið einungis vilja vekja fólk til umhugsunar um umfjöllun fjölmiðla um málefni WOW air með bréfi sínu til Blaðamannafélags Íslands. Spurður um rangfærslur í umfjöllun fjölmiðla segist hann ekki ætla að tjá sig um einstakar fréttir af málinu.

„Við erum ekki að ráðast á blaðamenn eða Blaðamannafélagið,“ segir Vignir Örn Guðnason, formaður Íslenska flugmannafélagsins. 

Félagið sendi Hjálmari Jónssyni, formanni Blaðamannafélags Íslands, bréf þar sem rannsóknar á umfjöllun blaðamanna, sem og hlunnindum til þeirra frá helsta keppinauti WOW air, er krafist.

Vignir Örn ítrekar að Íslenska flugmannafélagið, sem er stéttarfélag flugmanna WOW air, hafi sent bréfið að eigin frumkvæði og að það sé ekki á vegum fyrirtækisins.

Ekki fjölmiðlum að kenna að illa gangi

„Það er ekkert eitt frekar en annað í umfjölluninni. Hún hefur almennt, og sérstaklega upp á síðkastið, verið neikvæð og kannski skiljanlega. Það er ekki fjölmiðlum að kenna að það gangi illa hjá félaginu, en á meðan það rær lífróðurinn er almenningsálitið oft byggt á einhverjum einstaklingi sem skrifar blogg í Svíþjóð og fjölmiðlar vitna í,“ segir Vignir Örn og á þar við Kristján Sigurjónsson, ritstjóra Túrista.is.

„Við skiljum að þetta sé fréttnæmt efni, en það eru miklir hagsmunir í húfi og okkur finnst það skipta máli að okkar yfirmenn fái að vinna í friði. Allar getgátur geta verið hættulegar. Við erum ekki að biðja um grið heldur vekja athygli á þessu.“

mbl.is