Telja tekjur standa undir tengingum Hvalárvirkjunar

Fossinn Drynjandi og í baksýn má sjá Drangajökul. Með fyrirhugaðri …
Fossinn Drynjandi og í baksýn má sjá Drangajökul. Með fyrirhugaðri Hvalárvirkjun yrði virkjað rennsli þriggja áa á Ófeigs­fjarðar­heiði: Hvalár, Rjúk­anda og Ey­vind­ar­fjarðarár. Rennsli í Drynjanda myndi minnka verulega. mbl.is/Golli

Tekjur Landsnets af því að flytja raforku frá Hvalárvirkjun munu standa undir framkvæmdum við fyrsta áfanga nýs tengipunktar frá Ísafjarðardjúpi að meginflutningskerfi raforku í Kollafirði. „Þetta verkefni eitt og sér er sjálfbært og mun ekki leiða til kostnaðarhækkunar hjá öðrum notendum,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, í samtali við mbl.is.

Tenging Hvalárvirkjunar verður, ef áætlanir ganga eftir, frá nýju tengivirki sem sett yrði upp í Ísafjarðardjúpi og um 26 kílómetra leið með loftlínu yfir Kollafjarðarheiði og í nýtt tengivirki sem reist yrði í Kollafirði í Reykhólasveit. Er það mat Landsnets að öll framkvæmdin, með tengingu Hvalárvirkjunar, kosti rúma fimm milljarða króna og að hún greiðist upp á fjörutíu árum.

Vesturverk hyggst reisa Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði í Árneshreppi á Ströndum sem er langt frá meginflutningskerfi raforku. Ýmsar leiðir hafa verið ræddar til að tengja virkjunina við kerfið og sú sem hér um ræðir felur í sér að flytja rafmagnið úr virkjuninni yfir Ófeigsfjarðarheiði og vestur í Djúp og þaðan áfram að Vesturlínu í Kollafirði.

Hvalárvirkjun yrði reist í Ófeigsfirði í Árneshreppi. Raforkuna þyrfti að …
Hvalárvirkjun yrði reist í Ófeigsfirði í Árneshreppi. Raforkuna þyrfti að flytja yfir Ófeigsfjarðarheiði í tengivirki í Ísafjarðardjúpi, þaðan yfir Kollafjarðarheiði og að Vesturlínu í Kollafirði. Kort/Landsnet

Enn hefur ekki verið ákveðið hvort jarðstrengur yrði lagður alla 45 kílómetrana yfir Ófeigsfjarðarheiði eða hvort loftlínur yrðu reistar að hluta. Vinna við umhverfismat á valkostum er að hefjast og sömuleiðis vinna samráðshóps um verkefnið sem fulltrúar ýmissa hagsmunaaðila munu eiga sæti í.

 „Hér er á ferðinni fyrsti áfangi þess verkefnis að tengja Hvalárvirkjun inn í Kollafjörð og enn er þetta á undirbúningsstigi,“ segir forstjóri Landsnets. Engar formlegar ákvarðanir um framkvæmdir hafi enn verið teknar enda mikil vinna fyrir höndum, m.a. skipulagsvinna þriggja sveitarfélaga og samningar við landeigendur.

Landsnet er nú að skoða þrjár mögulegar staðsetningar tengivirkis í Ísafjarðardjúpi: Langadal, Lágadal og Miðdal.

Eftir að skipulagsvinnu lýkur verður farið í mat á umhverfisáhrifum, bæði tengipunktsins sjálfs sem og línunnar um Ófeigsfjarðarheiði. „Ákvarðanir verða ekki teknar fyrr en búið er að fara í gegnum alla þessa ferla, svo það er enn töluvert í að endanleg útfærsla liggi fyrir,“ segir Guðmundur Ingi.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. mbl.is/Árni Sæberg

Hann segir nokkrar ástæður fyrir því að til greina komi að hafa tengipunkt virkjunarinnar í Ísafjarðardjúpi. „Í fyrsta lagi er verið að skoða fleiri virkjanakosti en Hvalárvirkjun á þessu svæði svo þetta kann að vera heppilegur staður til að tengja aðrar virkjanir inn á kerfið. Einnig er það forsenda hjá okkur að þessi tengipunktur falli að framtíðaruppbyggingu raforkukerfis Vestfjarða og möguleikum að hringtengingu úr Djúpinu til Ísafjarðar sem Vestfirðingar hafa kallað eftir.“

Í þriðja lagi nefnir hann þá möguleika að dreifikerfi Orkubús Vestfjarða á þessum slóðum geti í framtíðinni tengst inn á hið fyrirhugaða kerfi. „Þannig að þetta gæti bætt afhendingaröryggi íbúanna í Djúpinu og á Hólmavík og í nágrenni. Almennt séð er það okkar mat að nýr tengipunktur á þessu svæði styrki mjög raforkukerfið til framtíðar.“

Guðmundur Ingi segir þennan fyrsta áfanga verkefnisins hagkvæman og að gert sé ráð fyrir að viðbótartekjur af Hvalárvirkjun muni standa undir kostnaði við framkvæmdir.

Tengingin áður ekki talin arðbær

Áður var staðan metin önnur. Haustið 2016 gáfu greiningar Landsnets til kynna að kostnaður við nýjan tengipunkt í Djúpinu yrði meiri en þær tekjur sem reiknuðust á móti „og að óbreyttu regluverki [væri] ekki til staðar heimild til að ráðast í framkvæmdina nema að þessi mismunur [yrði] gerður upp sérstaklega,“ líkt og Guðmundur Ingi orðaði það í bréfi til oddvita Árneshrepps í lok ágúst það ár.

Hvað hefur breyst frá þeim tíma sem gerir verkefnið sjálfbært nú?

Guðmundur Ingi segir ýmislegt hafa breyst og verkefnið þróast. Þá hafi verið til skoðunar að hafa tengipunktinn á allt öðrum stað eða í Geiradal. „Nýja útfærslan, að tengja inn í Kollafjörð, er hagkvæmari, þetta er miklu styttri leið að fara. Hún mun líka hafa meiri áhrif á öryggi Vestfirðinga heldur en fyrri lausn.“

Hann bendir á að tekjur Landsnets af verkefninu séu annars vegar hefðbundnar gjaldskrártekjur og hins vegar tengigjald sem Vesturverk þurfi að greiða. „Þannig að virkjunaraðilinn leggur fram ákveðna upphæð inn í fjárfestinguna, hversu mikið mun fara eftir því hvernig tengingin verður útfærð.“

Á þessu stigi getur Landsnet ekki upplýst hver kostnaðarhlutdeild virkjunaraðila verður, „en unnið er eftir reglugerðum og skilmálum á skiptingu kostnaðar á milli Landsnets og nýs aðila sem tengist kerfinu“.   

En er ákvörðun um þennan fyrsta áfanga og kostnaðargreining hans háð því að fleiri virkjanir verði reistar á þeim slóðum sem tengipunkturinn er fyrirhugaður?

„Þessi framkvæmd og þessar fjárfestingar sem við leggjumst í núna í fyrsta áfanganum eru sjálfbærar,“ ítrekar Guðmundur Ingi. „En komi fleiri virkjanir inn, sem gæti orðið annar áfangi þessa verkefnis, mun það auðvitað skila meiri tekjum og gæti leitt til gjaldskrárlækkunar eða staðið undir frekari fjárfestingum til styrkingar kerfisins. Svo vissulega hjálpar það okkur í ákvarðanatökunni að fleiri virkjanakostir séu til skoðunar.“

Á kortinu er sýnt hvernig Hvalárvirkjun yrði tengd meginflutningsnetinu og …
Á kortinu er sýnt hvernig Hvalárvirkjun yrði tengd meginflutningsnetinu og einnig eru merktar inn á það aðrar fyrirhugaðar virkjanir á Vestfjörðum: Í Hest- og Skötufirði, Sængurfoss, í Hvanneyrardal, Austurgili og Þverá (Skúfnavötn). Kort/Landsnet

Ekki mun koma til þess að sögn Guðmundar Inga að þessi framkvæmd Landsnets hægi á annarri nauðsynlegri uppbyggingu og styrkingu raforkukerfisins á Vestfjörðum. Áfram verði unnið að ýmsum verkefnum í því sambandi.

Jarðstrengur alla leið eða að hluta

Kerfislega séð er mögulegt að flytja rafmagn alla leiðina frá Hvalárvirkjun og vestur í Djúp um jarðstreng, líkt og Vesturverk hefur óskað eftir, en þó er ekki víst að það verði niðurstaðan. Það mun stjórnast af spennustigi strengsins því hafa þarf í huga að lagning jarðstrengs á einum stað í raforkukerfinu hefur áhrif á slíka möguleika annars staðar.

Ef 66 kílóvolta (kV) strengur yrði fyrir valinu væri hægt að leggja hann alfarið í jörð. Ef valinn yrði 132 kV strengur væri hægt að leggja hann í jörð á 55-67% leiðarinnar. Hærra spennustig er fýsilegri kostur að því leyti að þá  tapast mun minni orka, um 0,6 MW á móti um 1,6 MW. Þessi miklu orkutöp eru kostnaðarsöm og auk þess sóun á orku, „eitthvað sem þarf að skoða með tilliti til skuldbindinga okkar í loftslagsmálum,“ bendir Guðmundur Ingi á. „Það kann að vera að það sé vænlegra að nýta þessa orku sem annars myndi tapast til orkuskipta eða eitthvað slíkt.“

Hagsmunaaðilar kallaðir að borðinu

Vinna við mat á umhverfisáhrifum þessara tveggja kosta er nú að hefjast. Samhliða er stefnt að því að vinna umhverfismat fyrir tengipunktinn frá Djúpi til Kollafjarðar. Einnig er nú að hefjast vinna samráðshóps um verkefnið sem ýmsir hagsmunaaðilar munu eiga sæti í, m.a. fulltrúar frá fjórum sveitarfélögum, skógræktinni og ferðaþjónustu- og  náttúruverndarsamtökum á Vestfjörðum ásamt samtökum ungra umhverfisverndarsinna. „Markmiðið með að kalla þessa hagsmunaaðila að borðinu og hafa þá með í undirbúningnum er að finna heppilegustu lausnina innan þess ramma sem við getum uppfyllt, tæknilega og fjárhagslega.“

Guðmundur Ingi segir góða reynslu af þessu fyrirkomulagi. „Með svona vinnu og samstarfi við fagaðila og fulltrúa nærumhverfis höfum við fundið betri lausnir.“

Kortið sýnir mögulega tengingu fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar við meginflutningskerfið sem og …
Kortið sýnir mögulega tengingu fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar við meginflutningskerfið sem og mögulega tengingu hennar til Ísafjarðar í framtíðinni. Kort/Landsnet

Orkustofnun á lokaorðið

Tengipunkturinn verður hluti af framkvæmdaáætlun næstu kerfisáætlunar Landsnets. Kerfisáætlun er háð samþykki Orkustofnunar, en með samþykki sínu samþykkir stofnunin öll þau verkefni sem eru á framkvæmdaáætlun. Næsta kerfisáætlun fyrir tímabilið 2019-2028 er á lokametrunum og verður sett í almennt umsagnarferli í fyrri hluta maí. Hún fer svo til samþykktar hjá Orkustofnun í september og hefur Orkustofnun frest til 15. desember þess að samþykkja hana.

Ef Orkustofnun er ekki sátt við innihald hennar, þar á meðal einstök verkefni, getur hún farið fram á að Landsnet geri breytingar á áætluninni, eða einstökum verkefnum á framkvæmdaáætlun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert